Stórtónleikar Rúnars Júlíussonar í Laugardalshöll ásamt fjölda gesta.
Laugardaginn 27. október.
Í YFIR fjóra áratugi hefur Rúnar Júlíusson staðið eins og klettur í rokkbrúnni. Plötur koma út reglulega og spiliríið er stöðugt en Rúnar sést varla sjálfur. Einbeitingin snýr öll að tónlistinni og Rúnar tranar sér lítt fram. Engu að síður er Rúnar kominn í þá stöðu að vera einn sá allra virtasti tónlistarmaður sem starfandi er í dag, hin óskoraða virðing sem fyrir honum er borin nær til allra kynslóða og það er sama úr hvaða geira kollegar hans eru, allir gefa þeir Rúnna "tvo þumla upp". Og allt þetta tal um hversu mikill töffari Rúnar er kann að vera orðið að klisju en þegar maður sá hann á sviðinu á laugardaginn verður þetta svo sáraeinfalt: Rúnar er svo hrikalega "kúl" að það nær engri átt. Sjarminn er svo gríðarlegur að Rúnna nægir að standa kyrr og horfa hljóður út í salinn til að fólk falli hreinlega að fótum hans. Á þessum tónleikum var farið í tímaröð yfir langan og gifturíkan feril Rúnars og margir af hans helstu samstarfsmönnum vottuðu honum virðingu sína. Þetta var kvöld risanna; að sjá Rúnar Júlíusson, Björgvin Halldórsson og Bubba Morthens saman á sviði var magnað og eiginlega ótrúlegt að sviðið skyldi rúma þessa þrjá kónga. Björgvin Franz Gíslason batt dagskrána saman með spaugilegum innskotum á milli atriða. Hann brá sér í gervi Rúnars á hinum ýmsu skeiðum í lífi hans og gerði vel. Fyrsta lagið var "Fyrsti kossinn" og bandið í þrusugír; synir hans Baldur og Júlíus, Þórir Baldursson mágur hans, Tryggvi Hübner og Björn Árnason. Shady Owens var fyrsti gestur og söng nokkur vel valin Hljómalög en næstir voru Magnús Kjartansson og Jóhann Helgason. Jóhann átti eftir að bakradda það sem eftir var kvölds en Magnús leiddi Rúnar og félaga í Trúbrotslög eins og "My Friend and I" og "Tangerine Girl". Maður fékk bráðagæsahúð í síðarnefnda laginu og ég er alltaf að gera mér betur og betur grein fyrir því hversu geðsjúk þessi sveit hefur verið. Algjört yfirburðaband og fyllilega sambærilegt við það sem bar hæst erlendis á þeim tíma.
Bo var næstur og lagið "Tasko tostada" af plötunni Hljómar '74 flutt af mikilli list. Bo flottur með gítarinn og hann kynnti sig og Rúnar sem "Ónlí Tú Bojs". "Diggi Liggi Ló" og "Harðsnúna Hanna" var svo snarað upp og stuðið orðið vel gott. Gylfi Ægisson kom svo í kjölfarið og saman sungu hann og Rúnar "Stolt siglir fleyið mitt" og náðu þeir að gefa þeim útúrjaskaða smelli nýtt líf þar og þá. Harla góður árangur það og Gylfi var hel.... flottur, sló eiginlega í gegn. Tók svo í spaðann á öllum hljómsveitarmeðlimum líkt og digurbarkalegur mafíósi. Rúnar söng svo einn og óstuddur hið fallega "Það þarf fólk eins og þig" áður en stutt hlé var gert.
Rúnar og sveit hans spiluðu svo tvö lög af sólóplötum, þar á meðal lagið "Söngur um lífið", áður en sjálfur Dr. Gunni sté á svið og saman fluttu þeir Ununarlagið "Hann mun aldrei gleym' henni". Frábært lag og innslag Dr. Gunna táknrænt fyrir það samþykki sem Rúnar hefur fengið frá yngra tónlistarfólki. Þetta var svo undirstrikað í næsta lagi, en þá komu Baggalútsmenn og sungu með honum "Pabbi þarf að vinna".
Fagnaðarlætin voru mikil þegar Bubbi Morthens mætti og sveitin renndi sér af offorsi í GCD-slagarann "Kaupmaðurinn á horninu". Þetta lag er svo gott sem fullkomið rokkstuðlag, snilldarlegt í einfaldleik sínum, minnir á meistarana í AC/DC. Tvö önnur lög og alls ekki síðri "Mýrdalssandur" og "Sumarið er tíminn" voru og flutt. Þá var það hið nýja lag Keflvíkinga, "Ó, Keflavík", lag sem er svo gott að mann langar eiginlega til að flytja til Keflavíkur þegar maður heyrir það. Rúnar og Jói Helga sungu það saman en tónleikarnir enduðu svo á lögum af nýjustu plötu Rúnars, Snákar í garðinum og þá hafði afabarnið, Björgvin Ívar, slegist í lið með sveitinni og lék á gítar. Rúnar og kona hans, María Baldursdóttir, luku svo kvöldinu með því að syngja saman dúett.
Þessi kvöldstund minnti dálítið á ættarmót. Gleðin í samverunni er útgangspunkturinn og aðalatriðið og þó að þessi eða hinn hafi ekki hitt á réttu nóturnar þá er það aukaatriði. Stemningin öll var hlý og vinaleg, það var ekki dauðan punkt að finna í efnisskránni og andi öðlingsins og ofurtöffarans læsti sig fallega um Höllina. Það er enginn – og það verður enginn – eins og Rúnar Júlíusson. Hann lengi lifi.
Arnar Eggert Thoroddsen - Morgunblaðið
Sjá myndir af tónleikunum frá vf.is