Rúnar Júlíusson er listamaður Reykjanesbæjar í ár og hefur, af því tilefni, gefið út eigin sólópakka sem ber nafnið Söngvar um lífið. Þar syngur hann rúmlega sjötíu lög á þrem diskum í glæsilegum pakka sem fylgt er úr hlaði með bæklingi sem Jónatan Garðarsson hefur skrifað. Lögin spanna 45 ára feril Rúnars og voru tekin upp á árunum 1965 (þegar hann söng Fyrsta kossinn inn á plötu með Hljómum) til 2008. Lögin á hljómdiskunum syngur Rúnar ýmist sem sóló-listamaður eða með ýmsum, ss. Hljómum, Lónlí Blú Boys, Bubba Morthens, Unun, Baggalút og fleirum.
Flest voru lögin tekin upp á Uptökuheimili Geimsteins í Reykjanesbæ, nema elstu verkin sem sum voru tekin upp erlendis eða í Reykjavík. Hópur valinkunnra hlóðfæraleikara, tónskálda og textahöfunda kemur við sögu á plötunum í þessum pakka, enda er amk. helmingur laganna þegar orðinn sígildur.
Hljómdiskasafnið er endurhljóðblandað og gefið út af Geimsteini í Reykjanesbæ.