
Geimsteinn og Bravó kynna með stolti stórtónleika í Laugardalshöllinni, laugardaginn 2. maí, til heiðurs minningu rokkhetjunnar og tónlistarútgefandans Rúnars Júlíussonar. Fram kemur landslið listamanna og margar af goðsagnakenndustu hljómsveitum landsins ásamt ættingjum Rúnars og Karlakór Keflavíkur.
Um Rúnar
"Skrautlegur tónlistarferill Rúnars Júlíussonar á sér enga hliðstæðu hér á landi og sennilega hvergi í heiminum. Hann á þó ýmislegt sameiginlegt með nokkrum af frægustu goðsagnapersónum rokksögunnar. Eins og Elvis Presley var hann einungis táningur þegar ferillinn hófst en hafði unnið fyrir sér sem bílstjóri fram að því. Líkt og John Lennon hefur hann alltaf verið maður fjöldans; töffari, andhetja og frægur fyrir hnyttin tilsvör og sérkennilegan orðaforða. Og hann á það sameiginlegt með Mick Jagger að fjandinn er laus þegar hann kemst í ham á sviðinu. Þeir sem muna eftir Rúnari úr Glaumbæ í kring um 1970 minnast þess þegar hann æddi um sviðið, stökk upp á risastór hátalaraboxin og lét öllum illum látum. Þessi dagfarsprúði drengur varð semsé háskalegur útlits og breyttist í algera ótemju þegar hann spilaði opinberlega. Ég man til dæmis eftir honum á Rokkhátíðinni á Broadway, 1984, þar sem hann var kynnir og hóf sýninguna með því að koma fremur léttklæddur og fljúgandi á kaðli ofan úr loftinu í einum enda hússins og alla leið inn á mitt svið." - Þorsteinn Eggertsson
Rúnar Júlíusson lést aðfararnótt föstudagsins 5. desember af völdum hjartaáfalls. Útgáfufyrirtæki hans Geimsteinn hélt árlega útgáfukynningu sína á veitingastaðnum Ránni fimmtudagskvöldið 4. desember þar sem listafólk útgáfunnar var saman komið. Rúnar var að fara á svið til að syngja og var að teygja sig eftir gítarnum þegar hann kenndi sér meins. Hann var fluttur á Landspítalann Háskólasjúkrahús þar sem hann andaðist.
Framhald og nánari upplýsingar á heimasíðu Rúnars
Landslið listamanna á sannkölluðum stórtónleikum
Staðfest er að eftirfarandi listamenn og hljómsveitir koma fram:
Áhöfnin á Halastjörnunni
Bjartmar Guðlaugs
Björgvin Halldórsson
Buff (Lónlí blú bojs syrpa)
Deep Jimi and the Zep Creams
Eiríkur Hauksson (GCD syrpa)
Hjaltalín
Meðlimir Hljóma
Jóhann Helgason
Karlakór Keflavíkur
KK
Lifun
Páll Óskar
Unun & Helgi Björns
Sálin hans Jóns míns
Stuðmenn
Meðlimir Trúbrots & Krummi
Óhætt er að fullyrða að hér sé á ferðinni eitt magnaðasta samansafn listamanna sem komið hefur fram á einum tónleikum hérlendis. Og samt er ekki loku fyrir það skotið að fleiri bætist í hópinn áður en yfir lýkur.
Sérstakir gestir eru Baldur og Júlíus synir Rúnars, María Baldursdóttir ekkja Rúnars og barnabörn Rúnars. Búast má við stórfjölskyldunni á sviðið í eftirminnilegu atriði.
Björn G. Björnsson sér um handrit og sviðssetningu og tónlistarstjórn er í höndum Þóris Baldurssonar. Hér er á ferðinni vönustu menn landsins enda hafa þeir séð um stærstu og best heppnuðu tónleika síðustu ára; má þar nefna minningartónleikana um Vilhjálm Vilhjálmsson og Jólagesti Björgvins tvö ár í röð.
Auk þess að smala saman þessum einstaklega glæsilega hóp listamanna, er stefnt að því að nota tæknina óspart til að fara yfir feril og ævi Rúnars, ekki síst myndvinnslu og gamalt efni úr hirslum Rúnars. Hver veit; ef til vill tekur Rúnar lagið með hjálp tækninnar ásamt einhverjum af ofantöldum listamönnum.
Miðasala hefst 5. mars
Miðasala hefst fimmtudaginn 5. mars kl. 10:00 á Miði.is og öllum sölustöðum Miða.is. Forsala fyrir póstlista Bravó verður haldin daginn áður, miðvikudaginn 4. mars kl. 10:00. Allir meðlimar póstlistans fá þá sendan tengil sem gerir þeim kleift að tryggja sér miða á tónleikana samstundis.
Miðaverð og svæðaskipting verður sem hér segir:
A+ svæði: 9.900 kr. (salur nær sviði)
A svæði: 7.900 kr. (salur fjær sviði)
B svæði: 6.900 kr. (stúka fyrir miðju)
C svæði: 4.900 kr. (stúka til hliðanna)
Hluti af hverjum seldum miða rennur í Minningarsjóð Rúnars Júlíussonar. Aðstandendur tónleikanna eru Geimsteinn og fjölskylda Rúnars og framkvæmdaaðilinn er Bravó.
Sjá mynd af salnum og svæðaskiptingu
Rúnar á Tónlist.is
Opinber heimasíða Rúnars
Rúnar á MySpace