runarjul.is | Rúnar Júlíusson | Fréttir      Rúnar Júlíusson

runarjul.is  »  Fréttir5. maí 2009
Fyrsta sólóplata Rúnars endurútgefin

Geimsteinn hefur endurútgefið fyrstu sólóplötu Rúnars Júlíussonar „Hvað dreymdi sveininn?“ á geisladiski. Á disknum er eitt aukalag en það er „Ég þrái að lifa“, síðasta lagið sem tekið var upp með söng Rúnars. Lagið er eftir Elmar Sindra Eiríksson en hljómsveitin Best fyrir leikur undir. Synir Rúnars, Baldur og Júlíus og afabarnið Björgvin Ívar, leika einnig í laginu.

Platan hefst á sálminum „Ó, Jesú bróðir besti“ sem Rúnar söng aðeins 6 ára og er þar á ferðinni upptaka sem afi hans hljóðritaði á stálþráð 1951. Er því hægt að segja að diskurinn rammi inn feril Rúnars með fyrsta tóninum og lokahljómnum.

„Hvað dreymdi sveininn?“ kom út 1976 og var fyrsta afurð Geimsteins sem er nú elsta starfandi hljómplötuútgáfan á Íslandi. Platan var tekin upp við bestu aðstæður á þeim tíma í New York og München. Allur undirleikur var í höndum fremstu „session“ hljóðfæraleikara í New York og fór þar fremstur í flokki snillingurinn Anthony Jackson.  Bassaleikur hans setur sterkan svip á lögin „Fraülein“, „Rokk og Ról“,„Söngur um lífið“ og „Hamingjulagið“ svo einhver séu nefnd. Þórir Baldursson fer síðan fimum fingrum um Hammond og hljómborð.

Mörg laganna hafa grafið sig í þjóðarvitundina eins og áðurnefnd lög og á boðskapur Hamingjulagsins sérstaklega vel við í dag. Í textanum er fólk hvatt til að gleyma kreppunni og krónuteppunni  og vera bjartsýnt lífið á. Því hamingjuna fyrir peninga, ekki kaupa má. Einnig er varpað fram áleitinni spurningu í laginu „Ef við lifum af verðbólguna?“

Þegar Rúnar hóf sinn sólóferil árið 1976 hafði hann verið í þremur vinsælustu hljómsveitum íslenskrar rokksögu, þ.e. Hljómum, Trúbroti og Lónlí blú bojs. Var hann í toppformi á þeim tíma og í kjölfarið fylgdu 13 sólóplötur auk platna með Geimsteini, GCD og fleirum.  Á nýafstöðnum minningartónleikum var merkum tónlistarferli Rúnars gerð góð skil af landsliði tónlistarmanna í troðfullri Laugardalshöll.« Til baka