
Upptökuheimilið Geimsteinn eins og Rúnar Júlíusson kallaði það hefur undanfarin ár verið opið almenningi á Ljósanótt. Gestir og gangandi gátu þá heilsað upp á Rúnar og skoðað hljóðverið hjá elstu hljómplötuútgáfunni á Íslandi. Þessa ljósanótt verður opnað safn til minningar um þekktasta son Keflavíkur og hefur það fengið nafnið Rokkheimur Rúnars Júlíussonar. Safnið er til húsa í nýrri viðbyggingu að Skólavegi 12 þar sem Rúnar bjó sitt heimili. Þar verður Rúnars minnst í myndum, munum og músik og er af mörgu að taka frá löngum, farsælum og fjölbreyttum ferli eins helsta listamanns bæjarins. Formleg opnun er kl. 17 - 20 föstudaginn 4. september og um helgina verður opið frá 14 – 18 laugardag og sunnudag.