runarjul.is | Rúnar Júlíusson | Fréttir      Rúnar Júlíusson

runarjul.is  »  Fréttir18. október 2010
Góðgerðarsöfnun til styrktar starfsemi Hjartaverndar


- Styttan af Herra Rokk komin á Hamborgarafabrikkuna

Nýverið festi Hamborgarafabrikkan kaup á styttu af Rúnari Júlíussyni, Herra Rokk. Styttan sem var vígð á Hamborgarafabrikkunni í dag, miðvikudaginn 22. september, er nákvæm eftirmynd Rúnars í fullri stærð, gerð af listamanninum Rúnari Hart eftir gifsmótum sem tekin voru af Rúnari nokkrum dögum áður en hann féll frá. Styttan mun standa á Hamborgarafabrikkunni um ókomna tíð til minningar um þennan merka tónlistarmann og ljúfmenni.

Af þessu tilefni standa Hamborgarafabrikkan, fjölskylda Rúnars og N1, fyrir góðgerðarsöfnun til styrktar starfsemi Hjartaverndar sem mun standa út október. Viðskiptavinir Hamborgarafabrikkunnar og N1 geta lagt sitt af mörkum með því að kaupa tvöfalda hljómleikaútgáfu af minningartónleikum um Rúnar sem fram fóru í Laugardalshöll 2. maí 2009. Útgáfan er veglegt ágrip af tónlistarferli Rúnars og inniheldur 30 lög á tveimur geislaplötum, þar á meðal hið geysivinsæla „Söngur um lífið“ í flutningi Páls Óskars.

GEISLAPLATAN KOSTAR 2500 KR. OG ÞAR AF RENNA 1000 KR. AF HVERRI SELDRI PLÖTU TIL HJARTAVERNDAR.

„Það er okkur sönn ánægja að koma að þessari söfnun þar sem faðir okkar fór í vel heppnaða hjartalokuaðgerð árið 1996. Í kjölfarið fylgdu 12 viðburðarík ár þar sem hann gaf út plötu á hverju ári, fékk ótal viðurkenningar, gaf út ævisögu sína, hélt stóra tónleika í Laugardalshöll, gaf út safndisk með yfirliti yfir ferilinn, gifti sig og sló síðasta hljóminn með félögum sínum í Cavern klúbbnum í Liverpool. Án þessa merka rannsóknarstarfs sem unnið hefur verið hjá Hjartavernd síðustu áratugina er óvíst að við hefðum fengið að njóta þessara ára með honum.”, segja Baldur og Júlíus, synir Rúnars heitins.

„Stuðningur þessi er ómetanlegur. Hann styrkir okkur enn frekar í baráttunni gegn hjartasjúkdómum og færir okkur nær takmarkinu, að finna þá sem eru í áhættu á að fá sjúkdóminn mörgum árum áður en einstaklingar byrja að líða fyrir hann. Þannig fáum við möguleika til varnar”, segir Vilmundur Guðnason, prófessor og forstöðulæknir Hjartaverndar.

Hamborgara gefið nýtt nafn - Herra Rokk - til heiðurs minningu Rúnars
Af sama tilefni mun matseðill Hamborgarafabrikkunnar framvegis skarta nýjum hamborgara sem ber nafnið Herra Rokk. Á honum eru beikon, bræddur gráðaostur og egg, en þannig vildi Rúnar vildi hafa sína hamborgara.

Í OKTÓBER RENNA 400 KRÓNUR AF HVERJUM SELDUM HERRA ROKK TIL HJARTAVERNDAR.

„Það er okkur mikill heiður að fá að varðveita þessa styttu og gleðiefni að fjölskylda Rúnars hafi tekið vel í þá hugmynd. Hjartavernd stóð Rúnari og fjölskyldu nærri og því finnst okkur frábært að geta lagt þeim lið með þessum hætti“, segir Jóhannes Ásbjörnsson, annar eigenda Hamborgarafabrikkunnar.


Mynd: Jóhannes, Baldur, Vilmundur og Júlíus á Hamborgarafabrikkunni.« Til baka