Rúnar Júlíusson

Rúnar Júlíusson

Flytjandi: Rúnar Júlíusson
Titill: Rúnar Júlíusson
Ár: 1985

Hlið 1

1. (Syrpa) Fyrsti kossinn, Heyrðu mig góða, Lífsgleði, Memory 5:20
2. Mandala, Comin your way 5:2

Hlið 2

1. All I wanna do 4:08
2. I will never be the same without you 4:01
3. Pablo the musicmaker 3:55

Skrautlegur tónlistarferill Rúnars Júlíussonar á sér enga hliðstæðu hér á landi og sennilega hvergi í heiminum. Hann á þó ýmislegt sameiginlegt með nokkrum af frægustu goðsagnapersónum rokksögunnar. 

Eins og Elvis Presley

var hann einungis táningur þegar ferillinn hófst en hafði unnið fyrir sér sem bílstjóri fram að því. Líkt og John Lennon hefur hann alltaf verið maður fjöldans; töffari, andhetja og frægur fyrir hnyttin tilsvör og sérkennilegan orðaforða. Og hann á það sameiginlegt með Mick Jagger að fjandinn er laus þegar hann kemst í ham á sviðinu. Þeir sem muna eftir Rúnari úr Glaumbæ í kring um 1970 minnast þess þegar hann æddi um sviðið, stökk upp á risastór hátalaraboxin og lét öllum illum látum. Þessi dagfarsprúði drengur varð semsé háskalegur útlits og breyttist í algera ótemju þegar hann spilaði opinberlega. Ég man til dæmis eftir honum á Rokkhátíðinni á Broadway, 1984, þar sem hann var kynnir og hóf sýninguna með því að koma fremur léttklæddur og fljúgandi á kaðli ofan úr loftinu í einum enda hússins og alla leið inn á mitt svið.

Rúnar Júlíusson

Hann fæddist í Keflavík, 13. apríl árið 1945 og var fremur stilltur í æsku. Þegar hann var aðeins fimm ára gamall söng hann barnasálminn „Ó, Jesú bróðir besti“ inn á segulband fyrir afa sinn, Stefán Bergmann. Rúmum þrjátíu árum síðar var sú upptaka pússuð upp, sett á hljómplötu og vakti það sérstaka athygli hvað strákurinn var lagviss og söng hreint. Í fyrra (2004) var hún enn aftur pússuð upp – í það skiptið með undirleik mágs hans, Þóris Baldurssonar – og sett á diskinn Trúbrotin 13.

Sú saga er löngu orðin fræg að Gunnar Þórðarson vantaði sárlega bassaleikara þegar stofna átti Hljóma. Hann leitaði þá til Rúnars, sem aldrei hafði snert bassa á ævinni en var farinn að æfa á fullu áður en vika var liðin, enda vissi Gunnar að drengurinn var með afbrigðum músíkalskur. Síðar hefur reyndar komið í ljós að Rúnar er talinn meðal bestu bassaleikara landsins. Sú saga hefur líka verið sögð af honum að hann hafi svo til ekkert sofið þrjú til fjögur fyrstu árin sem hann var í Hljómum. Ekki var nóg með að hljómsveitin þeystist um allt land og spilaði á hverju kvöldi, drengurinn hafði verið valinn í landsliðið í knattspyrnu og var auk þess að smíða eigið einbýlishús, ásamt sambýliskonu sinni, Maríu Baldursdóttur, og það hús er engin smásmíði. Þrátt fyrir allt puðið sáust aldrei þreytumerki á Rúnari. Hann var allra manna fjörugastur á sviði og átti það til að sveifla sér upp á hátalarabox og láta öllum illum látum meðan hann spilaði og söng. Í hjáverkum samdi hann lög og texta.

Árið 1976, þegar hljómsveitirnar HljómarTrúbrot og Lónlí Blú Bojs höfðu runnið sitt skeið, en Rúnar var óslitið í þeim öllum, stofnaði hann eigin hljómplötuútgáfu; Geimstein. Sú útgáfa er enn starfrækt og er eina reglulega hljómplötuútgáfan á landinu utan Reykjavíkur og þar að auki elsta hljómplötuútgáfa landsins. Hún hefur gefið út hátt á annað hundrað hljómplötur, ræður yfir eigin hljóðveri sem gengur undir nafninu Upptökuheimilið og hefur yfirleitt verið stjórnað af Rúnari sjálfum.

Að byrja glæsilegan feril á því að spila með hljómsveit sem varð fræg á einni nóttu og hefur síðan verið kölluð frægasta hljómsveit allra tíma á Íslandi er kannski ekki hollt fyrir venjulegan, ómótaðan ungling – en það er seigt kjötið í honum Rúnari og þar að auki hlýtur hann að hafa sterkar taugar. Hann hefur tekið hverri frægðarholskeflunni á fætur annarri með ótrúlegu æðruleysi, hvort sem hann hefur birst með HljómumTrúbroti, Lónlí Blú Bojs eða í endurkomum eins og með Bubba Morthens í GCD, Unun, sinni eigin heimilishljómsveit eða með reggísveitinni hjálmum. Á milli þess að koma fram á viðamiklum skemmtunum og hljómleikum, hér á landi og erlendis, hefur hann komið fram á rólegum ölstofum, yfirleitt með einum eða tveim kunningjum eða sonum sínum (þeim Baldri Þóri og Júlíusi Frey) og er þá allt annar Rúnar en þeir eiga að venjast sem borga rándýran aðgangseyri til að sjá hann og heyra. Það eru semsé ýmsar hliðar á honum. Heima fyrir er hann gjarnan rólegur og yfirvegaður, ýmist að sýsla við upptökur í stúdíóinu sínu, eða þá að hann getur legið yfir tafli eða lögum og textum sem hann er að semja – eða eitthvað. Hann er örlátur gestgjafi og það er notalegt að heimsækja hann.

En þótt Rúnar sé einstaklega skapgóður að eðlisfari og ótrúlega þolinmóður við uppvöðslusama aðdáendur (eða öfundarmenn) þá getur hann verið fjandanum ákveðnari og fastur fyrir ef svo ber undir. Hann hefur til dæmis alltaf átt heima í Keflavík og hefur aðeins einu sinni á ævinni flutt á milli húsa. Þó lýsti hann því yfir á sínum tíma, þegar breyta átti opinberu nafni Keflavíkur, að hann flytti burt úr plássinu ef nafninu yrði breytt – ef einhver vildi kaupa húsið hans. Bara verst að hann býr í höll sem er svo dýr að enginn hefur ennþá treyst sér til að kaupa hana af honum. Svo að úr því hann varð að sætta sig við að búa í Reykjanesbæ (sem Keflavík heitir núorðið á opinberum pappírum), þá gerði hann sér lítið fyrir og stofnsetti, ásamt nokkrum kunningjum sínum, stórskemmtilegt safn á tveim hæðum í veitingahúsi í Keflavík; Poppminjasafn Íslands.

Á þessu ári (2005) eru liðin sextíu ár frá fæðingu hans. Að vísu hægði það nokkuð á ferli hans, að fyrir nokkrum árum kom í ljós fæðingargalli sem hafði þau áhrif að hjartað í honum virtist ætla að gefa sig. En læknavísindin kipptu því í lag (hvað er eitt hjartaáfall fyrir kappa eins og Rúnna Júl?) og hann fór að taka það rólega um skeið. Síðan hefur hann reyndar komist í Íslandsúrslit í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (Eurovision), farið á fullt skrið með gömlu hljómsveitinni sinni, Hljómum, tekið upp og gefið út fjölda hljómplatna og komið fram hingað og þangað með eigin hljómsveit. Í fyrra (2004) söðlaði hann enn einu sinni um og gaf út sólóplötu þar sem eingöngu voru flutt trúarleg lög (Trúbrotin 13; einn af bestu hljómdiskum Íslands það árið) og í ár er hann að endurtaka leikinn – að þessu sinni með dyggum stuðningi reggí-hljómsveitarinnar hjálma, en segja má að hann hafi að miklu leyti alið hana upp.

Hann er semsé alltaf að – hverja einustu viku ársins (getur ekki einu sinni stillt sig um að taka til hendinni í sumarfríum) og það er ómögulegt að segja til um hvað honum dettur í hug næst.

© Þorsteinn Eggertsson