GCD

Rokksveitin GCD er beint afsprengi samstarfs þeirra Bubba Morthens og Rúnars Júlíussonar. Sveitin sem varð til senmma sumars 1991 var sumarhljómsveit og starfaði hún í þrjú sumur það er 1991, 1993 og 1995 og sendi frá sér plötu hvert sumar. Síðan hefur verið hljótt um sveitina ef frá er telin safnplata með úrvali af plötunum þrem sem kom út árið 2002. En í ljósi sögunnar er aldrei að vita hvort GCD starti aftur yfirgefnum bíl í vegakanti á Mýrdalssandi.

Rúnar Júlíusson er án vafa holdgerfingur rokktónlistar á Íslandi. Hann hafði með einstökum rokktöktum og villtri sviðsframkomu tryllt, jafnt ungar meyjar sem pilta á fyrri hluta sjöunda áratug tuttugustu aldarinnarinnar ásamt félögum sínum í Hljómum og síðar í Trúbrot. En enginn er eilíf nýung og með árunum hafði þessi lifandi goðsögnin rokksins allt að því fallið í gleymsku og það efni sem hann hafði sent frá sér ekki þótt ekki ná sömu hæðum og áður. Einn þeirra sem Rúna hafði haft áhrif á var Bubbi Morthens og segja má að fyrir utan nafna sinn Rúnar Gunnarsson hafi hann verið einn fárra íslenskra tónlistarmanna, sem það gerðu á þeim árum sem hann var að meðtaka tónlistarstefnur og strauma sem hann síðar átti eftir að nýta sér, ef frá er talinn Megas sem Bubbi hafði unnið með á níunda áratugnum.

Árið 1990 stóð Bubbi á ákveðnum tímamótum. Hann hafði verið á toppi íslenskrar rokk- og popptónlistar í heilan áratug og líðandi ár hafði verið Bubba gjöfult. Bók hans og Silju Aðalsteinsdóttur hafði setið á bekk metsölubóka og sólóplatan Sögur af landi hafði fengi feikigóða dóma og jákvæð viðbrögð plötukaupenda. Honum fannst komin tími til að kominn að vekja athygli á þessum áhrifavaldi sínum sem Rúnar Júlíusson óneitanlega var. Hann fékk því Rúnar til að koma fram með sér á árlegum Þorláksmessutónleikum á Hótel Borg. Meðal laganna sem þeir félagar fluttu á þessum mögnuðu tónleikum á Borginni var nýtt lag Bubba; Kaupmaðurinn á horninu. Lag sem síðar átti eftir að prýða fyrstu plötu þeirra félaga. Í kringum þessa uppákomu fæddist sú hugmynd að Bubbi myndi aðstoða Rúnar við gerð næstu sólóplötu hans og leggja þar til texta og jafnvel einhverjar lagasmíðar.

Snemma árs 1991 var Bubbi kominn af stað við tónleikahald og í marsbyrjun var hann á ferð um Skandinavíu. Alþýðublaðið tók hús á honum í ferðinni og í viðtali við hann sem byrtist í blaðinu 28. mars 1991 kemur fram að Bubbi lét sig dreyma:
„Helst myndi ég vilja getað slappað af í eitt ár og skrifa á hverjum degi. Og það er ég að gera mér vonir um að geti tekist á þessu ári, farið eitthvað með fjölskylduna og skrifa – hvíla mig aðeins á músíkinni“.

Vart hafði fólk rennt augunum yfir þessi ummæli þegar þær fréttir flugu að Bubbi væri kominn á fulla ferða við vinnu á nýrri plötu með Rúnari. Upphaflega ætlunin hafði þó verið að leggja til nokkra texta og laglínur eins og áður segir. En þegar Bubbi mætti til Rúnars með ein tvö þrjú lög og texta í pokahorninu má segja að hann hafi orðið fyrir rokkálögum sem framkölluðust í textum og lagahugmyndum og ákváðu þeir á sömu stundu að vinna plötuna í sameiningu.

Var nú hóað í mannskap til að galdra rokkið á band. Bergþór Morthens, bróðir Bubba mætti með gítarinn sinn, Gunnlaugur Briem trommari Mezzoforte og markar þessi fyrsta plata upphaf áratugs samstarfs Bubba við þennan snjalla trommara. Þá var hóað í frasasérfræðinginn Óttar Felix sem var þeim einskonar andlegur rokkleiðbeinandi, og að auki var til kallaður Guðmund Pétursson gítarséní sem lék á sligedgítar í nokkrum laganna. Og nú gerðust hlutirnir hratt,  lögin útsett, æfð og hljóðrituð, í maímánuði, undirskrifaður samningur við útgáfufyrirtækið Steinar hf og innan við viku frá því að Alþýðublaðið byrti viðtalið voru þeir félagar mættir til tónleikahalds á veitingastaðnum Tveir vinir og annað í fríi, þar sem þeir prufukeyrðu fyrir viðstadda nokkur þeirra laga sem platan átti að geyma.

Daginn fyrir útgáfudag plötunnar eða þann 16 júní 1991 var hljómsveitin mætt á einhverjum stæðstu rokktónleikum íslandssögunnar, þar sem til leiks voru mættar nokkrar erlendar sveitir eins og Posion, Slaughter, Quierboys, Thunder auk GCD en nafn sveitarinnar var fengið af væntanlegri plötu þeirra félaga, og á síðustu stundu bættust við hljómsveitirnar Bulletboys og Artch en sú síðastnefnda kom frá Noregi og skartaði rokksöngvaranum Eiríki Haukssyni. Óhætt er að segja að þetta hafi verið rokkveisla á heimsmælihvarða, því stöðvar eins og MTV sendi hingað tökulið ásamt því að þó nokkur fjöldi erlendra blaðamanna og annar gesta víðsvegar frá Evrópu mættu á svæðið.

Þann 17. júní var útgáfudagur plötu þeirra Bubba og Rúnars sem hlaut heitið GCD og var plötuheitið bein tilvitnun í þá gítarhljóma sem eru svo algengir í rokkinu. Platan var tileinkuð minningu Rúnars Gunnarssonar fyrrum söngvara Dáta og mátti finna á plötunni lag Bubba við texta eftir Berglindi Gunnarsdóttur systur Rúnars. En það var eina lag plötunnar sem ekki var eftir þá félaga Bubba og Rúnar. Sem voru sameiginlega skráðir sem höfunda laga og texta.

Mönnum fannst þó textar og lagasmíðar frekar komnar úr smiðju Bubba en Rúnars svona miðað við fortíð beggja og þegar Bubbi var inntur eftir þessu var skýring hans einföld. Þar sem hann sagði nálægð Rúnars hafi opnað hugmyndir texta og tóna á það sterkan hátt að aldrei hafi annað komið til greina en skrifa þá báða fyrir efninu enda hefði Rúnar vissulega lagt sitt að mörkum í gerð efnisins ýmsit með beinum hætti eða með nærveru sinni. Platan sem kom bæði út á LP og CD bar eitt aukalag á CD útgáfunni en árið 1991 var síðasta árið sem LP formatið var almennt gefið út hér á landi.  Útgáfudagur plötunnar var líka upphaf átaksins útgefenda Íslanskt tónlistarsumar sem hitti heldur betur í mark því fjölmargar plötur komu út þetta sumar og sala þeirra fór fram úr björtustu vonum. Það má því segja að plata sveitarinnar hafi opnað þetta átak.

Fljólega var ljóst að plötunni yrðu þeir að fylgja eftir með einhverju tónleikahaldi og voru 4-5 uppákomur markmiðið. En segja má að sveitin og platan hafi slegið í gegn og þau viðbrögð sem almenningur sýndi kom flestum í opna skjöldu og skyndilega var GCD orðin heitasta band sumarsins sem þeysti milli staða og spilaði út í eitt. Bubba sagði síðar að hann hafi aldrei haft eins mikið að gera við spilamennsku og eins góðar tekjur af sumarmánuðum eins og sumarið 1991. GCD var hljómsveit ársins hvað vinsældir varðaði og lög eins og Mýrdalssandur, Kaupmaðurinn á horninu, Þitt síðasta skjól, Hamingjan er krítarkort, Hér er nóg og Dansinn lifir stritið, voru leikin á öllum útvarpsstöðvum sólahringum saman. Rokktónlistinn átti greinilega upp á pallborði landsmanna það árið 1991. Platan fékk góða dóma, þó ekki væru þar nýungar á ferð því efni plötunnar var allt að því klassískt rokk og ról og þekktir frasar úr rokkheiminum, án þess þó að hægt væri að benda á einhverjar lagastuldir í því samhengi enda slíku ekki til að dreifa.

Fjórða júlí þetta sumar kom sveitin fram á minningartónleikum um Karl J. Sighvatsson sem efnt var til í Þjóðleikhúsinu, en hann hafði látist í sviplegu bílslysi fyrr um árið. Þar tók sveitin þrjú lög; Íslandsgálgi, Kaupmaðurinn á horninu og Þófamjúkt rándýr en tvö fyrrnefndu lögin voru síðar gefin út á safnplötu sem hafði að geyma upptökur frá þessum minningartónleikum en þriðja lagið var óútgáfuhæft vegna hljóðgalla. Meðal stæðstu viðburða sveitarinnar má nefna Rykkrokkhátíðina 1991, Þá komu þeir fram á stórtónleikum í Höllinni 6 og 7. júlí ásamt Skid Row sem þá var eitt heitasta rokkbandið í Bandaríkjunum.

Bubbi hljóðritaði enga nýja plötu fyrir þessi jólin, þess í stað var ákveðið að gefa út upptökur frá tónleikum sem hann hafði efnt til árinu áður í veitingahúsinu Púlsinum. Henni varð engu að síður að fylgja eftir. Rúnar varð einnig að snúa sér aftur að sólóferli sínum og rekstri útgáfufyrirtækis síns Geimsteins. Ákváðu þeir félagar því að efna til lokatónleika sem fram fóru á Hótel Borg 1. nóvember 1991 og var þeim útvarpað beint á Rás 2. Með þessum tónleikum lauk sögu GCD að sinni þetta fyrsta starfssumar.

Í ársbyrjun 1993 slitnaði upp úr samstarfi Bubba og útgáfufyrirtækisins Steinar með látum og var úr nokkur blaðamatur þar sem ásakanir gengu á vígsl milli Bubba og stjórnenda útgáfunnar. Þar kom fram að GCD hafði gert þriggja plötu samning við Steinar. Skífan sem þá þegar átti hlut í Steinari hf náði samningi við Bubba og sá um útgáfu næstu plötu. Ákveðið var að keyra GCD þetta sumar og aftur hóað í Gulla trommara og Begga gítarleikara og platan Svefnvana hljóðrituð með látum á aðeins 153 tímum daganna 1-14 mars en endanlegri vinnu við gerð plötunnar lauk 19. mars Þessi keyrsla bitnaði óneytanlega eðlilegum svefntímum meðlima og var heiti plötunnar bein skýrskotun til þess að sögn þeirra félaga. Plötunni var vel tekið og skaut sér strax í efsta sæti yfir mest seldu plöturnar fyrstu útgáfuvikuna samkvæmt lista DV sem byrtist 19. maí og þar sat hún fram til 16 júní er hún vék fyrir plötu Pláhnetunnar, Speis. 

Lög eins og Hótel Borg, Litli prinsinn, Sumir fá allt og Sumarið er tíminn, náðu eyrum landsmanna og voru meðal mest leiknu laga útvarpstöðvanna. Þetta sumar var svipað árinu 1991 að því leiti að margar stærri hljómsveitirnar sendu fra sér efni s.s. Stjórnin, SSsól og Pláhnetan með Stefán Hilmarsson í broddi fylkingar, þá endurvakti Pétur Kristjánsson hljómsveitina Pelican með breyttri liðskipan og sendi hún frá sér plötu þetta sumar. Það má því segja að félagsheimili landsins hafi haft úr nógu að velja sumarið 1993. Dómar plötunnar voru að öllu jöfnu á jákvæðum nótum en hugmyndin með plötunni var rétt eins og á fyrri plötunni hefðbundið roll og ról.

Þó ekki færi eins mikið fyrir sveitinni í fjölmiðlum og árið 1991 náði hún þó að vekja á sér talsverða athygli fyrir nýtt lag sem samið var fyrir úthátíðina að Eiðum um verslunarmannahelgina. Lagið sem spilað var í nokkur skipti á Rás 2 þótti helst til klúrið að mati siðapostula landsmanna og hvarf það úr spilun eftir að einhverjar kvartanir höfðu borist útvarpsstöðinni. Þetta lag var síðar ætlað pláss á safnplötu sveitarinnar Mýrdalssandur sem íslenskir tónar gaf út 2002 en þegar til átti að taka fundust ekki upptökur lagsins og verður það því að bíða síns tíma. Þegar líða fór að hausti var sama upp á teningnum meðlimir hurfu til annara starfa og má eiginlega segja að sveitin hafi hljóðnað, því nú voru ekki haldnir neinir stórir lokatónleikar og engin loforð gefin, eiginlega var GCD aðeins lögð í hvíld um sinn.

Vorið 1995 var enn og aftur blásið lífi í GCD. Og fyrstu fréttir voru þær að þeir félaga Bubbi og Rúnar hefðu haldið saman til Amesterrdam með það í huga að semja efni á plötuna. Fáum sögum fór þó af ferðinni og ekkert að finna í efni hennar sem tengst gæti þeirri merku borg. Gárungarnir höfðu þó í flymtingum að þeir Bubbi og Rúnar hefðu verið að skoða lestarkerfið þarna í Amsterdam til að viðra að sér efni í texta lagsins Vímuefnahraðlestin og enn sem svo oft áður flugu rætnar tungur þess efnis að nú væri Bubbi fallin í klær vímuefnanna á ný, Það var þó ekki greint á plötunni eða tónleikahaldi sveitarinnar þetta sumar.

Eftir heimkomuna eða frá seinni hluta mars fram í apríl var plata tekin upp án vinnuheitis en var á einhverjum tímapunkti nefnd Á grænni grein, endanlegt heiti hennar varð þó Teika þegar hún kom út 1. júní 1995, Hvergi er að finna ásættanlega skýringu á þessari nafngift. Til aðstoðar þeim Bubba, Rúnari, Gulla og Begga kom Þórir Baldursson og lék á Hammondinn sinn og raddaði með þeim piltum. Platan var skrifuð var á þá félaga Bubba og Rúnar líkt og fyrsta platan og því má segja að strangt til tekið hafi Bubbi og Rúnar sent frá sér tvær plötur en GCD hljómsveitin aðeins eina. Í huga almennings tilheyra þær þó allar þeim mannskap sem nefndi sig GCD og því er efni þessara platna allt skrifað á sveitina.
Lög eins og Ég sé ljósið, Konur og vín og Vímuefnahraðlestin náðu að vekja forvitni plötukaupenda. Efnistaka plötunnar var á líku róli og áður. Þetta sumar þvælldist sveitin um landið líkt og fyrri sumur og að venju var hún lögð til hvílu að hausti án loforða. Sveitin hafði nú skilað þrem plötum af sér og ólíklegt að hún verði endurvakin nema þá sem eitthvert „Comback“ þegar tímin hefur lagt dulúð sína yfir nafn og efni GCD, hvað sem því líður getur sveitin státað af því að vera einhver vinsælasta rokksveit sem starfaði á tíunda áratug tuttugustu aldarinnar og heilum áratug síðar er vel hægt að fullyrða að efnið hefur elst vel eins og safnplatan Mýrdalssandur sem gefin var út árið 2002 sannar.

© Bárður Örn Bárðarson

GCD

Plötur