Thor's Hammer

Thor’s Hammer er ekki nafn á erlendri bítla hljómsveit heldur skilgetnu afkvæmi Hljóma frá Keflavík, fyrstu íslensku bít sveitarinnar.

Hljómar voru brautryðjendur að flestu leyti. Þeir voru fyrstir íslenskra bítla til að gefa út hljómplötu og reyna fyrir sér af fullri alvöru á erlendum vettvangi. Í upphafi sjöunda áratugarins var það ekki til siðs að hljómsveitarmeðlimirnir væru sjálfir höfundar þeirra laga sem þeir tóku upp til útgáfu á plötum. En það urðu kaflaskil á þessum vettvangi með fyrstu litlu plötu Hljóma.

Þegar Svavar Gests var að hefja hljómplötuútgáfu sína árið 1965, voru kynslóðaskipti í tónlistarlífi landsins að eiga sér stað. Þetta skynjaði Svavar og sýndi í verki hversu vel hann var með á nótunum þegar hann gerði plötusamning við Hljóma, þessa ungu síðhærðu pilta frá Keflavík. Piltarnir voru Gunnar Þórðarson sólógítarleikari, Rúnar Júlíusson bassaleikari, Erlingur Björnsson rytmagítarleikari og Engilbert Jensen trommari. Allir voru þeir liðtækir söngvarar, þótt Engilbert og Rúnar væru hinum tveimur nokkru fremri á því sviði. Gunnar Þórðarson hafði sett saman nokkur álitleg lög við enska texta og tóku strákarnir ekki annað í mál en að þau yrðu valin á plötuna. Svavar féllst á það, en krafðist þess að textarnir yrðu á íslensku. Í sameiningu völdu þeir tvö lög til útgáfu sem hljóðrituð voru í leiklistarstúdíói Ríkisútvarpsins að Skúlagötu 4. Þegar kom að sjálfri upptökunni hafði Pétur Östlund, rauðhærður leðurjakkatöffari sem lék aðallega jazztónlist, verið ráðinn trommari. Það var mat Hljómanna að betur færi á að Engilbert sleppti trommukjuðunum og einbeitti sér að söngnum í framlínu hljómsveitarinnar. Pétur var ákaflega hrynþéttur trommari og bætti mjög samspilið innan sveitarinnar. Samt sem áður tókst ekki að fanga kraftinn sem fylgdi lifandi tónlistarflutningi Hljóma á plötunni. Svipmót tónlistarinnar varð mýkra á upptökunum, en á dansleikjum og ef til vill gerðu íslensku textarnir sitt til að slípa lögin til.  Tónlistin missti að nokkru hinn rokkaða keim, en varð jafnframt vænlegri til vinsælda, enda slógu bæði lögin í gegn á augabragði. Hin bjarta söngrödd Engilberts átti stóran þátt í að skapa vinsældir Hljóma. Engilbert var feiminn að eðlisfari og leið ekki vel í hlutverki söngvarans þótt hann hefði sungið töluvert með hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar á sínum tíma. Hann vildi helst vera trommuleikari og pakkaði því settinu niður, tók kjuðana og gekk til liðs við Óðmenn, nýja hljómsveit úr Njarðvíkum sem var að hefja starfsemi. Samkeppnin varð strax hörð milli þessara nærsveitunga. Umboðsmaður Óðmanna auglýsti að þeir væru besta söngsveit landsins. Óðmenn urðu fljótt vinsælir, en Hljómar héldu fylgi sínu og bættu það töluvert í kjölfar litlu plötunnar.

Hljómar var ein best spilandi bítla hljómsveit landsins á þessum tíma. En aðdáendurnir söknuðu þess að Engilbert var ekki lengur í sveitinni enda var lagið ,,Bláu augun“ firnavinsælt um þetta leyti. Tónlist Hljóma varð villtari og háværari með tilkomu Péturs. Takturinn þéttist og þegar Gunnar Þórðarson eignaðist ,,fuzz“ tæki, varð tónlistin all víruð á köflum. Á sama tíma fæddist hugmyndin að Thor’s Hammer, nokkurs konar útflutningsdeild innan Hljóma. Strákarnir sáu að bíthljómsveitir, hvaðanæva að sem sungu á ensku, áttu möguleika á að slá í gegn í hinum stóra heimi. Fyrir þessa fjóra stráka, sem allir voru aldir upp í námunda við bandarísku herstöðina, var ensk tunga jafn eðlileg og íslenskan. Hljómum fannst þeir hafa náð eins langt hér heima og mögulegt var og því tímabært að beina sjónum út yfir hafið til annarra landa og reyna að stækka kaupendahópinn.

Svavar Gests var ekki jafn sannfærður um  ágæti þessarar hugmyndar og þeir voru. Þessvegna leituðu Thor’s Hammer til Fálkans eftir samningi, en þar á bæ voru menn í góðum samböndum úti í hinum stóra heimi. Fálkinn kostaði þá til Englands vorið 1966 og þar komu þeir sér fyrir í Lansdowne hljóðverinu í Lundúnum. Að morgni dags mættu útsendarar EMI útgáfunnar til að hlýða á leik þeirra, þungir á brún. Þegar þeir voru horfnir á braut var hafist handa við upptökusrnar. Þeir tóku  upp 9 lög og komu átta þeirra út þremur litlum plötum; tveimur tveggja laga og einni fjögurra laga. Níunda lagið var lagt í salt og ekki gefið út, en kemur nú út í fyrsta sinn á þessari geislaplötu.

Í kjöflar þessarar hljóðritunar gerðu Hljómar kvikmyndina Umbarumbamba í anda Bítlanna. Myndinni var ætlað að vera í fullri lengd, en endaði sem tæplega 20 mínútna stuttmynd. Þar réð mestu frumstæður tækjabúnaður til kvikmyndagerðar og takmörkuð tækniþekking, en þó aðallega skortur á fjármagni til vinnslunnar. Það var kvikmyndagerðarmaðurinn Reynir Oddsson sem stýrði verkinu og bar hitann og þungann af vinnslunni. Myndin var sýnd í kvikmyndahúsum víða um land sem aðalmynd  á eftir klukkutíma langri aukamynd. Aðeins var til eitt sýningareintak af myndinni og þess vegna fór filman mjög illa, rispaðist og skemmdist þegar hún var sýnd. Þetta er algengur fylgikvilli kvikmyndasýninga, en það skorti fjármagn til að láta útbúa fleiri sýningareintök af myndinni. Eftir að sýningum lauk virtist kvikmyndin hafa gufað algerlega upp. Lengi vel var talið að filman hefði týnst eða eyðilaggst, en nú hefur komið í ljós að Reynir Oddson tók hana til varðveislu og hefur hug á að koma henni í sýningarhæft ástand með tíð og tíma.

Thor’s Hammer snéru aftur heim á klakann eftir stutta dvöl við upptökuvinnu í Englandi og ætluðu að herja á fjarlæg mið frá Íslandi. En á meðan Thor’s Hammer menn sinntu framadraumum sínum, bættist fjölskrúðugur gróður við íslensku tónlistarflóruna. Óðmenn nutu vaxandi vinsælda, reykvísku unglingahljómsveitirnar Pops og Toxic voru ákaflega efnilegar, Pónik með Einar Júlíusson, fyrrum söngvara Hljóma, í fylkingarbrjósti juku stöðugt vinsældirnar, Dúmbó og Steini frá Akranesi gerðu sér dælt við tónlist ungu kynslóðarinnar, Mánar frá Selfossi stigu sífellt öflugri dans fyrir austan fjall og ekki má á gleyma Dátum sem komu mjög sterkir til leiks um þetta leyti. Thor’s Hammer hljómurinn virðist hafa verið of framsækinn,  harður og villtur til að viðhalda vinsældunum og unga fólkið beindi athygli sinni einfaldlega að öðrum hljómsveitum.

Þegar leið fram á árið 1967 voru Thor’s Hammer draumarnir nánast að engu orðnir. Að vísu hafði Columbia útgáfan í Bandaríkjunum sýnt hljómsveitinni áhuga. Þeir fóru til fundar við ráðamenn Columbia í Bandaríkjunum og lögðu grunninn að tveimur lögum í þarlendu hljóðveri. Síðan var förinni heitið til Bretlands og söngröddum bætt í lögin Show Me You Like Me og By The Sea. Nokkru áður hafði Pétur Östlund ákveðið að hætta í hljómsveitinni og fara á sjóinn. Hann var orðinn leiður á blankheitunum, ákvað því að selja trommusettið og fara á vertíð til að rétta fjárhaginn við. Hinir Hljómarnir leituðu ekki langt yfir skammt, heldur báru í víurnar við Engilbert og lokkuðu hann með gylliboðum yfir til sín. Þeir tjáðu honum að plötusamningur í Bandaríkjunum væri í uppsiglingu og Engilbert ákvað að freista gæfunnar. Lítið varð hinsvegar úr sjómennskunni hjá Pétri, því Óðmenn gerðu honum freistandi starfstilboð áður en hann var munstraður háseti. Örlögin höguðu því þannig að þessir tveir trommarar höfðu sætaskipti þegar Pétur gekk í Óðmenn í ársbyrjun 1967, stuttu eftir að Engilbert hafði gengið aftur í sína gömlu hljómsveit Hljóma.

Minna varð úr víkingi Thor’s Hammer í Bandaríkjunum en efni stóðu til. Columbia gaf einvörðungu út eina litla plötu með þeim árið 1967, en síðan ekki söguna meir. Strákarnir komust hinsvegar í kynni við tónlist annarrar efnilegrar hljómsveitar sem var á samningi hjá Columbia. Það var Cyrkle sem gaf út tvær litlar plötur og kom laginu Red Rubber Ball í 2. sæti bandaríska listans í apríl 1966. Í  ágúst sama ár fylgdu Cyrkle vinsældunum eftir með laginu Turn-Down Day, sem skreið í 16. sæti. Þessarar bandarísku hljómsveitar er getið hér vegna þess að nokkru síðar kom lagið Turn-Down Day út í flutningi Hljóma undir nafninu ,,Ég er þreytt á þér“. Umboðsmaður Cyrkle var enginn annar en Brian Epstein, umboðsmaður The Beatles, en eftir dauða Epsteins runnu framavonir Cyrkle út í sandinn. Ráðamenn Columbia reiknuðu með að Thor’s Hammer gætu náð viðlíka árangri og Cyrkle, en þegar þeir útreikningar gengu ekki upp, dofnaði áhugi þeirra á Thor´s Hammer.

Thor´s Hammer höfðu beðið skipbrot í öldusjó heimshafanna og allt benti til þess að dagar Hljóma væru einnig taldir á þessum tímamótum. En keflvísku bítlarnir létu ekki bugast. Þeir leituðu til Svavars Gests og sannfærðu hann um að fjármagna gerð fyrstu íslensku 12 laga bítla plötunnar. Platan var tekin upp í Chappel hljóðverinu í Lundúnum haustið 1967 og kom út nokkru síðar. Með þessari plötu risu Hljómar upp úr öskustónni sem höfuðpaurar íslensku bítlabylgjunnar, en sú saga verður ekki rakin frekar hér.

Sagan af Thor’s Hammer tók ekki enda þó að heimsfrægðar draumarnir rættust ekki að sinni.  Að vísu heyrðist afar sjaldan minnst á Thor´s Hammer næstu árin og ekki voru fleiri upptökur gerðar í nafni Thor´s Hammer. En tónlistin lifði áfram og bar hljómsveitinni og meðlimum hennar gott vitni. Hin allra síðustu ár hefur orðspor Thor´s Hammer borist víða um heimsbyggðina og safnarar sótt mjög fast að eignast eintök af litlu plötunum fjórum. Hafa smáskífur Thor´s Hammer gengið kaupum og sölum meðal safnara í  Svíþjóð, Noregi, Japan, Kóreu, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi, Ástralíu og víðar. Það orð fer af ágæti hljómsveitarinnar meðal þessa fólks að: „Thor´s Hammer sé best varðveitta leyndarmál Bítlatímans“. Þá er einnig sagt að „Thor´s Hammer sé besta óuppgötvaða bíthljómsveit heims“. Thor’s Hammer er með öðrum orðum á góðri leið með að verða goðsögn þremur áratugum eftir að hún var og hét. Hefur þessi dýrkun gengið svo langt að vestur í Bandaríkjunum er starfandi hljómsveitin The Spectors, sem hefur tónlist Thor’s Hammer í hávegum. The Spectors eru með lög Thor’s Hammer á efnisskrá sinni og reyna að líkja eftir söng og hlóðfæraslætti þeirra í einu og öllu.

Það var ekki síst hinn sérstæði persónulegi hljómur Thor’s Hammer sem vakti athygli  á hljómsveitinni og hefur viðhaldið áhuga fólks um allan heim á tónlistinni. Gunnar Þórðarson var í hópi fyrstu gítarleikara heims til að nota fuzz tæki og náði einstökum tökum á því. Það var að miklu leyti fuzz hljómurinn, sem Gunnar Þórðarson höndlaði svo kunnáttusamlega, sem gaf tónlist Thor’s Hammer hinn einstaka hljóm. Þá skapaði trommuleikur Péturs Östlund magnaðann drifkraft sem braust út í tónlistinni ásamt bassaleik Rúnars Júlíssonar. Rytmagítarleikur Erlings Björnssonar sá síðan um að fylla upp í hverja glufu. Ekki má undanskilja raddsetningar Gunnars, Rúnars og Erlings, en samsöngur þeirra var eitt af aðalsmerkjum Thor’s Hammer. Tónlistin var allt í senn, villt og þýð, hrá og mjúk, einföld og flókin og umfram allt blæbrigðarík. Hún var þó fyrst og fremst full af sköpunarkrafti, leikgleði og brennandi eldmóði.  Þessir eiginleikar gera tónlist Thor’s Hammer jafn ferska í dag og hún var um miðjan sjöunda áratuginn.

© Jónatan Garðarsson

Thor's Hammer

Plötur