Geimsteinn

Rúnar stofnaði hljómsveitina Geimstein sem nokkurs konar fulltrúa samnefndrar hljómplötuútgáfu. Hljómsveitin varð fyrst til í New York við upptökur á fyrstu plötu sveitarinnar sem kom út haustið 1976. Kjarnann mynduðu Rúnar, María og Þórir Baldursson sem þá var starfandi í New York og Munchen jöfnum höndum. Aðrir hljóðfæraleikarar voru vel þekktir bandarískir session menn og þeirra frægastir voru Anthony Jackson, bassaleikari og Keith Forsey, trommuleikari. Platan hafði að geyma cover lög úr ýmsum áttum og reis þar hæst hið ódauðlega „Betri bílar, yngri konur“. Rúnar hóf nú að gera út hljómsveit á íslenska ballmarkaðinn og kallaði til menn eins og Sigurð Karlsson á trommur, Finnboga Kjartansson á bassa, Tryggva Hubner á gítar og Engilbert Jensen á slagverk og söng. Í þessari mynd gerði hljómsveitin víðreist um landið í nokkur ár. Ýmsir aðrir liðsmenn voru kallaðir inn á þegar einhverjir þurftu að hvíla eða að sinna öðrum verkefnum en kjarninn var þó alltaf Rúnar og María.

Næsta plata sveitarinnar kom út ári síðar og var sami háttur hafður á varðandi upptökur. Þórir Baldursson stýrði upptökum í New York og erlendir session menn sáu um undirleikinn. Platan fékk nafnið Geimtré en bar engan ávöxt á við „Betri bíla..“, þó margir góðir sprettir hafi verið teknir. Rúnar samdi mikið af lögunum og Þórir lagði einnig sitt af mörkum.

Árið 1978 voru í hljómsveitinni Geimsteini gömlu Júdasarfélagarnir Vignir Bergmann, Hrólfur Gunnarsson og Finnbogi Kjartansson ásamt Maríu og Rúnari. Spilaði sú hljómsveit um víðan völl og var nú ákveðið að hún myndi taka upp í þeirri mynd sem hún var. Ekki var farið lengra en inn í Hafnarfjörð í Hljóðrita til að hljóðrita plötuna Geimferð. Sú plata innihélt lög eftir meðlimi sveitarinnar ásamt nokkrum „ábreiðslum“ og var sú þekktasta lagið „Ég sé um hestinn“ sem fékk mikla spilun og má enn heyra á sveitaböllum og víðar.

Hljómsveitin Geimsteinn hélt áfram að spila í ýmsum myndum næstu árin þar til síðasta plata sveitarinnar kom út og fékk hún nafnið „Með þrem“. Þar er vísað í þá sem sungu á þeirri plötu eða Þórir, Rúnar, Engilbert og Maríu. Lítið fór fyrir þessari plötu og síðan hefur hljómsveitin Geimsteinn ekki gefið út plötu en starfaði sem danshljómsveit fram til 1985 þegar Rúnar ákveður að taka upp nafnið „Hljómsveit Rúnars Júlíussonar“.