Lónlí Blú Bojs

Hljómsveitin Ðe lónlí blú bojs varð til eftir að Hljómar lögðu upp laupana 1975, í bili að minnsta kosti. Þorsteinn Eggertsson var einn hugmyndasmiðanna á bak við tjöldin, auk þess að semja stóran hluta þeirra texta sem áttu eftir að prýða plötur sveitarinnar. Í fyrstu var reynt að halda því leyndu hverjir meðlimir sveitarinnar voru. En aðstandendurnir voru orðnir of þekktir til að það tækist og könnuðust menn strax við þá Gunnar Þórðarson, Rúnar Júlíusson, Björgvin Halldórsson og Engilbert Jensen.

Reyndar nefndi sveitin sig aðeins Ðe lónlí blú bojs á sínum fyrstu plötum en segja má að eftir að fyrsta plata leynihljómsveitarinnar með laginu Diggý liggý ló kom út hafi almenningur tekið nafnið í sínar hendur því sveitin var sjaldnast kölluð annað en Lónlí blú bojs eftir það og svo fór seint og um síðir að sveitin lét þessa styttingu yfir sig ganga og tók hana upp líka.

Fyrsta LP plata þeirra kom út í maí 1975 og hlaut heitið Stuð stuð stuð, sem var bein skírskotun til innihaldsins, efnið var fleygt og seldist platan í yfir 10.000 eintökum á skömmum tíma. Enda skartaði platan hverjum smellinum á fætur öðrum og lög eins og Heim í Búðardal sem Engilbert Jensen söng, Kærastan kemur til mín, Það blanda allir landa upp til stranda og Ást við fyrstu sýn, voru kyrjuð um land allt. Þegar sveitin gerði sér ljóst þvílíkra vinsælda hún naut var óðar ráðist í gerð næstu plötu, Hinn gullni meðalvegur, en undanfarinn var smáskífa með laginu Kærastan kemur til mín. Segja má að sagan hafi endurtekið sig hvað sölu varðaði og seldist platan í bílförmum og plötur sveitarinnar urðu einhverjir auðfúsustu partýgestir sem völ var á.

Lónlí Blú Bojs

Plötur

Í ágúst 1975 héldu þeir Lónlí blú bojs í Hljóðrita sem þá hafði nýlega verið stækkaður og tóku upp plötuna Á ferð. Hljómaútgáfan hafði splittast, Rúnar stofnað  útgáfufyrirtækið sitt Geimstein og Gunnar Þórðarson hafði einnig stofnað eigin útgáfu, Ýmir, og var þriðja plata sveitarinnar gefin út á því útgáfumerki seinnihluta árs 1976. Meðal laga á þessari plötu má nefna Alli fantur, Taktu boð mín til Stínu, Fagra litla diskódís og Djús í glas. Platan náði ekki sömu vinsældum og tvær fyrri plöturnar. Þetta reyndist svanasöngur einmana drengjanna í Lónlí blú bojs, því sveitin hætti nokkru síðar.

Nokkru eftir að sveitin hætti kom út safnplata þar sem helstu lögum hennar var safnað saman enda smáskífusmellirnir Diggy liggy lo og Kærastan kemur til mín löngu uppseldir og árið 1989 endurútgaf Geimsteinn svo þessa safnplötu í bættri útgáfu undir heitinu 25 vinsælustu lögin.

© Bárður Örn Bárðarson

Metnaðarfull plata Hljóma; Hljómar 74, seldist ekki sérlega vel, svo Björgvin Halldórsson stakk upp á því að tekið yrði upp léttmeti í lagavalið til að ná betur eyrum almennings.

Hugmyndin fékk misjafnar undirtektir, svo að úr varð að búin var til einskonar feluhljómsveit úr Hljómum; hljómsveit sem eingöngu átti að spila inn á plötur undir einhverju hallærislegu nafni. Meðlimanna yrði hvergi getið. Hljómsveitin hélt því áfram að spila en nú aðeins í hljóðverum og undir nafninu Ðe Lónlí Blú Bojs.

Ráðist var í upptöku á fjórtán lögum, ýmist erlendum eða eftir Gunnar Þórðarson, í árslok 1974. Platan átti að heita Ðe Lónlí Blú Bojs: Súperkommersíal. Ekki átti að eyða krónu í að auglýsa hana, heldur átti að demba henni undirbúningslaust á markaðinn. En til að flana ekki að neinu var gefin út tveggja laga plata í ársbyrjun 1975; Diggi liggi ló með Kurrjóðaglyðru á bakhliðinni. Platan fékk ótrúlega góðar undirtektir og í apríl sama ár voru hin tólf lögin gefin út á plötunni Stuð, stuð, stuð. Þorsteinn Eggertsson, sem hannaði umslagið utan um hana, skrifaði umsögn aftan á umslagið; algert bull þar sem engin rétt nöfn voru nefnd, enda var hljómsveitin þegar orðin fræg sem dularfull leynihljómsveit.

Platan var ekkert auglýst en fékk ótrúlega góðar viðtökur. Ekki leið á löngu þar til tíu þúsund eintök höfðu selst, enda urðu nokkur laganna þegar mjög vinsæl, eins og td. Það blanda allir landa upp til stranda. En lagið sem sló allt út var Heim í Búðardal eftir Gunnar Þórðarson við texta Þorsteins Eggertssonar. Lagið var meira en heilt ár á toppi vinsældalistans og miklar deilur spruttu upp, í útvarpi, dagblöðum og víðar, um ágæti textans. Gunnar hafði kallað lagið Back to Birmingham en Þorsteinn, sem samdi textann á átta mínútum, heimfærði það upp á íslenskt þorp þar sem hann hafði verið í sveit um fermingu.

Lónlí Blú Bojs gáfu út aðra breiðskífu árið 1975 (Hinn gullni meðalvegur). Aldrei áður hafði íslensk hljómsveit verið svo afkastamikil á plötumarkaðnum. Þá fletti blaðamaðurinn Ómar Valdimarsson ofan af leynd hennar og tjáði landslýð hverjir væru raunverulega í henni. En hljómsveitin hélt vinsældum sínum og gaf út eina plötu í viðbót, Hringferð kring um landið árið 1976 og endaði glæsilegan feril sinn einmitt á þannig hringferð.

© Þorsteinn Eggertsson