Hljómar

Sagan á bak við ævintýrið

Það var á vordögum maímánaðar á því herrans ári 1963 að helsti dægurlagafrömuður Suðurnesja, hljómsveitarstjórinn Guðmundur Ingólfsson tilkynnti mannskapnum að hann hygðist leggja hljómsveitina sína niður.

Ungu strákarnir í bandinu þeir Gunni Þórðar gítarleikari á Sunnubrautinni og Eddi Kristins trommari voru nú ekki alveg á þeim buxunum að hætta að spila strax. Þeir urðu sammála um að það væri góð hugmynd að hvíla sig á rokkinu og stofna Bossa- Nova band! En það átti eftir að breytast all snögglega. Eddi fór í mánaðarferð til Englands, kom heim í byrjun júlí og öllum áformum um settlega Latin-músik var vikið til hliðar.

Hann talaði nú ekki um ananð við Gunna en magnaðan kvartett sem hann sá leika á hverju kvöldi í heila viku suður í Bournemouth. Hróður þeirrar sveitar fór eins og eldur um sinu um allar Bretlandseyjar og var þegar farinn að berast út fyrir landsteinanna. Þeir kölluðu sig The Beatles og voru nýbúnir að gefa út stóra plötu. Í Keflavík var nú allt sett í gang.

Elli Björns sem þá bjó á Brekkubrautinni, bak við styttuna af Óla Thors var sjálfkjörinn á rythmgítarinn, en nafni hans Jónsson sem hafði verið á bassa með strákunum hjá Guðmundi Ingólfs var ekki jafn augljós kostur. Fyrir það fyrsta var hann töluvert eldri en strákarnir og þar fyrir utan vildi hann helst ekki spila nema að fá allt útskrifað á nótum, en það passaði einhvern vegin ekki við nýju gardínurnar!

Gunni Þórðar stakk upp á að fá vin sinn og jafnaldra, hann Rúnna Júll á Skólaveginum til að leika á bassa í hljómsveitinni. Menn voru nú ekki alveg sammála þessu. Ástæðan var ofur einföld, Rúnni kunni ekki á hljóðfærið, en Gunni gaf sig ekki, sagðist taka ábyrgð á vini sínum og myndi kenna honum. Ókei ! Einsi Júll, sem sungið hafði með hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar var síðan fimmti maður. Nú hófust stanslausar æfingar alla daga, Rúnni átti nýju plötuna með The Beatles, af henni voru æfð sex lög og öðrum sjötíu og fjórum rokk- og dægurlögum bætt við.

Það vantaði nafn á hljómsveitina og kvöld eitt í september á æfingu í Krossinum var tekið á því máli. Þrjár tillögur lágu fyrir, eihver stakk upp á Strengjum, Rúnni stakk upp á Black Knights, en Eddi lagði til að nafnið Hljómar yrði notað. Hljómar varð ofan á í atkvæðagreiðslu og svo héldu menn áfram að æfa og æfa.

Stóra stundin rann upp þann 5. október. Eftir þriggja mánaða þrotlausar æfingar fengu strákarnir tækifærið óvænt upp í hendurnar. Hljómsveit úr Reykjavík sem var bókuð á ball í Krossinum boðaði forföll með fárra daga fyrirvara og Hljómar frá Keflavík og hlutu eldskírn sína þetta kvöld. Rúnni sneri hliðinni í áhorfendur allt kvöldið, þeir héldu að kappinn væri að sálast úr feimni. Það var nú ekki ástæðan, heldur var hann að fylgjast með Gunna segja sér til með bassaleikinn: “ F , B, F C o.s.frv. Þeir fengu firna góðar undirtektir enda margt sem hjálpaðist að.

Þeir voru frumherjar það fór ekki á milli mála, ekki aðeins fyrsta bandið sem búið var að æfa almennilega nýju bítlalögin , heldur voru þeir einnig í alvörubúningum. Rúnni hafði á boltaferðalagi í útlöndum keypt forláta svart leðurvesti með rauðu baki og krómuðum hnöppum og fékk mömmu sína til að sauma samskonar vesti á hina strákana. Undir vestunum voru allir í röndóttum Melkaskyrtum sem Eddi hafði keypt í London. og með svartar leðurslaufur. Langflottastir! Það var líkt með Hljóma frá Keflavík og Bítlana frá Liverpool, frægð þeirra barst með leifturhraða um landið allt. Þennan vetur voru þeir eftirsóttasta hljómsveitin á skólaböllum Reykjavíkuræskunnar. Um vorið var haldið í hringferð um landið allt og leikið á stærstu útisamkomu sumarsins í Húsafelli.

Á þessu fyrsta ári urðu nokkur söngvaraskipti í bandinu. Einsi Júll söng með þeim fyrstu þrjá mánuðina, en hætti þegar hann fór í hálskirtlatöku . Kalli Hermanns, skólafélagi Gunna og Rúnna leysti hann af hólmi í ársbyrjun 1964 og var aðalsöngvari Hljóma til vorsins.Hann hætti áður en fyrsta hringferðin hófst og fór á námssamning hjá rafvirkjamaeistara. Það var sjónarsviptir af Kalla, bæði hafði hann næmt eyra fyrir þeirri tegund af tónlist, sem var í hávegum höfð og féll einnig vel inn í hópinn.

Rúnni, Gunni og Elli skiptu söngnum á milli sín þetta sumar, en um haustið eftir fræga för til Liverpool borgar settist Berti Jensen við trommusettið í stað Edda og gerðist ásamt Rúnna Júll helsti söngvari sveitarinnar næstu árin. Þetta haust fengu drengirnir plötusamning, fyrstir allra ungra hljómsveita í landinu. „Bláu augun þín“ (Berti ) og „Fyrsti kossinn“ (Rúnni) voru fyrstu tvö af fjölmörgum sönglögum Gunna Þórðar, sem slegið hafa í gegn hjá íslensku þjóðinni. Hljómar tóku á sínu fyrsta starfsári forystuna í bítlamenningunni á Íslandi og létu hana aldrei af hendi.

Keflavík og Hljómar eru órofa heild í hugum margra Íslendinga. Hljómar komu öðrum fremur menningarlífi Keflavíkur á kortið. Fáir Íslendingar hafa hlotið viðlíka frægð og viðurkenningu samlanda sinna. Fararstjórar Kiwanis- og Lionsklúbba sem koma víðvegar að af landinu í skipulagðar ferir til Keflavíkur láta stöðva rútuna við skáhúsið á Sólvallagötunni, æskuheimili Rúnna og tilkynna: „Þarna bjó hann, þegar ævintýrið byrjaði“ og síðan er numið staðar víð Skólaveginn: „Hérna býr hann núna.“

©2001 Óttar Felix Hauksson

Hljómar

Plötur

Fyrstu skref frægrar hljómsveitar

Þótt Hljómsveit Guðmundar væri ekki orðin gömul sumarið 1963 höfðu orðið kynslóðaskipti í henni að nokkru leyti. Skólahljómsveitin Skuggar hafði ungað út nokkrum efnilegum hljóðfæraleikurum, svo sem Gunnari Þórðarsyni og Erlingi Björnssyni, en  yngri söngvari hljómsveitarinnar, Einar Júlíusson, var á svipuðum aldri. Þar kom að þeim fannst þeir vera of ungir til að vera í hljómsveitinni og hættu í henni; fyrst Einar en síðar Gunnar og Erlingur. Skömmu síðar ákváðu þeir að stofna sína eigin hljómsveit. Þeir fengu trommarann í Hljómsveit Guðmundar, Eggert Kristinsson, til að slást í hópinn, enda var hann ekkert mikið eldri en þeir og hann sló til.

Þá vantaði bara bassaleikarann. Gunnar stakk upp á besta vini sínum, Rúnari Júlíussyni, sem hafði að vísu aldrei spilað á hljóðfæri en hann hafði einhverju sinni sungið á skólaballi við góðar undirtektir. Þetta var skarpur strákur og Gunnar þóttist viss um að hann gæti lært á bassa og ákvað að kenna honum undirstöðuatriðin. Rúnar var fljótur að læra og var farinn að æfa með þeim skömmu síðar. Eggert vildi endilega að hljómsveitin fengi rammíslenskt nafn og stakk upp á hún héti Hljómar. Það nafn var samþykkt með semingi þar til annað skárra kæmi upp.

Hljómsveitin var búin að spila í Krossinum og var farin að ná töluverðum vinsældum meðal unga fólksins á Suðurnesjum þegar Einar var fluttur á spítala vegna veikinga í hálsi. Á meðan hann var á spítalanum stakk hann upp á að Karl Hermannsson leysti hann af. Hljómsveitin fór síðan að æfa ný lög, enda voru Bítlalögin farin að berast til landsins í stórum stíl. En þegar Einar útskrifaðist af spítalanum höfðu Hljómar ákveðið að þeir vildu heldur hafa Karl en Einar fyrir framan hljóðneman.

Karl var því söngvari Hljóma þegar þeir slógu í gegn á hljómleikum í Háskólabíói, 4.mars 1964, og urðu landsfrægir í einu vatvangi. En skömmu áður en þeir héldu í fyrstu hringferð sína um landið hætti Karl við að fara með þeim svo að næstu mánuðia voru þeir bara fjórir og sungu sjálfir.

Kvikmyndin Umbarumbamba og fleira

Frægð Hljóma var með ólíkindum eftir að þeir fóru hringferð um landið og skruppu til Liverpool til að spila í Cavern-klúbbnum þar sem sjálfir Bítlarnir voru uppgötvaðir. En Eggert Kristinsson kom ekki heim aftur með hljómsveitinni þar sem hann hafði innritað sig í verslunarskóla á Englandi. Þeir leituðu því aftur í Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar og buðu söngvaranum Engilbert Jensen trommarastarf en hann hafði einmitt verið trommari hljómsveitarinnar síðan Eggert hætti með henni. Engilbert varð ekki bara trommari Hljóma, hann var líka gerður að aðalsöngvara þeirra.

Hljómplötuútgefandann Svavar Gests hafði um skeið langað til að gefa út einskonar tíðarandaplötu með íslenskum unglingahljómsveitum en þegar hann kynntist Hljómum persónulega, á hljómleikum The Swinging Blue Jeans í Austurbæjarbíói í febrúarbyrjun 1965, ákvað hann að gefa út plötu með Hljómum einum.

Nokkrum dögum áður en platan yrði hljóðrituð kom trommarinn Pétur Östlund að máli við þá og bauðst til að leysa Engilbert af trommunum. Þeir voru gamlir kunningjar og það var ekki meiningin að bola Engilbert úr hljómsveitinni. Hún var það hátt launuð að hún átti alveg að þola fimm manns. Engilbert vildi samt halda sínu óskertu eða engu svo hann ákvað að hætta en féllst þó á að syngja lagið Bláu augun þín inn á væntanlega plötu og það varð úr.

Meðan Pétur var í Hljómum næstu mánuði var þeim boðið að leika í kvikmynd. Þeim leist ekki bara vel á hugmyndina, heldur lögðu þeir einnig töluverða peninga í myndina. Hún fékk nafnið Umbarumbamba og fjallaði um hljómsveit sem undirbýr sveitaball og spilar þar. Hún var ekki mjög löng en þó tókst strákunum að flytja nokkur lög í henni, öll eftir Gunnar Þórðarson með enskum textum eftir Pétur Östlund, enda hafði hljómsveitin tekið sér nafnið Thors Hammer um stundarsakir og plata með lögum úr kvikmyndinni komst á markað í Bandaríkjunum þar sem hún náði inn á vinsældalista í einu fylkinu. En áður en hljómsveitin spilaði inn á fyrstu breiðskífu sína hafði hún aftur tekið upp nafnið Hljómar, Pétur var hættur og Engilbert aftur sestur við trommurnar.

Shady kemur til sögunnar

Af og til á ferli Hljóma birtust útlendir menn á ólíklegustu stöðum og vildu gera þá heimsfræga. Meðal þeirra voru sterkefnaðir strákar sem gegndu herþjónustu hér á landi en ætluðu síðan að snúa sér að umboðsmennsku að þjónustunni lokinni. Tveir þessara náunga komust svo langt í sameiningu að gera samning við Hljóma um Bandaríkjaför. Strákarnir höfðu hins vegar ekki meiri trú á sjálfum sér en svo að þeir vildu styrkja hljómsveitina áður. Þeir buðu því söngkonunni Shady Owens úr Óðmönnum og Gunnari Jökli úr Flowers til samstarfs við sig.

Töluvert blaðamál var gert af þessu tilefni og var greinilegt að meðlimum Óðmanna og Flowers var misboðið. En þegar Bandaríkjamennirnir tveir voru komnir heim til sín, höfðu þeir misst áhugann á Hljómum og ekkert varð frekar úr samningunum. Gunnar Jökull snéri því aftur í hljómsveitina Flowers en Shady ílengdist í Hljómum og varð með tímanum ein skærasta skrautfjöður þeirra.

Fyrsta breiðskífa Hljóma kom út árið 1967 og varð gífurlega vinsæl. Það var því tímabært að gefa út aðra breiðskífu ári síðar. Að þessu sinni samdi Gunnar helmingin af lögunum og Þorsteinn Eggertsson alla textana. Platan var tekin upp í Lundúnum og nokkrir frægir, enskir hljóðfæraleikarar fengnir til að spila með á henni. Shady söng fjögur lög, Engilbert fjögur og Rúnar fjögur, en allir sungu bakraddir ef svo bar undir. Platan þótti marka tímamót á sínum tíma enda sópaði hún til sín fjölda viðurkenninga. Gagnrýnendur dagblaðanna kusu hana plötu ársins, Gunnar Þórðarson lagahöfund ársins og Þorstein Eggertsson textahöfund ársins.

Þegar hér var komið sögu voru Hljómar fyrir löngu orðin ein virtasta atvinnumannahljómsveit landsins og höfðaði bæði til unglinga og eldra fólks. Þegar mikið lá við var hún fengin til að koma fram í sjónvarpinu, til dæmis um jól og áramót, enda hafði heill þáttur verið gerður með henni hér á landi og hún komið fram í enska sjónvarpinu Thames. Og þegar Íslendingar skiptu yfir í hægri umferð árið 1968 voru Hljómar fengnir til að syngja lag dagsins: Varúð til vinstri – hætta til hægri.

Endurvakning og útgáfustarfsemi

Síðasta hljómplata Trúbrots, Mandala, var gefin út af hljómsveitinni sjálfri. Það var í fyrsta skiptið á landinu sem hljómsveit réðst í að gefa út eigin breiðskífu. Þá voru þeir Gunnar, Rúnar Júlíusson, Magnús Kjartansson og Gunnar Jökull í hópnum. Engilbert Jensen hafði sungið með á plötunni og var tekinn í hópinn. Skömmu seinna bættust Vignir Bergmann og Ari Jónsson bættist við þannig að hljómsveitin var orðin að sextett. Þannig var hún þegar hún hætti störfum árið 1973 og Gunnar Þórðarson fór með Ríó-tríóinu í hljómleikaferð til Kanada. Eftir það tóku þeir Rúnar og Gunnar sér frí – í fyrsta skiptið í tíu ár – og fóru að hugsa málin. Þegar fríinu lauk endurreistu þeir Hljóma, í tilefni af því að fimm ár voru liðin síðan hún lauk störfum, og ákváðu að stofna alvöru hljómplötuútgáfu sem skyldi heita Hljómar hf. Meðlimir þessara nýju Hljóma voru, auk Gunnars og Rúnars, þeir Engilbert Jensen og Birgir Hrafnsson en þeim síðastnefnda var fljótlega skipt út fyrir Björgvin Halldórsson. Fyrsta platan var lítil Hljómaplata með enskum textum og hét Slamat Djalan Mas.

Á þjóðhátíðarárinu 1974 kom út breiðskífa sem hét einfaldlega Hljómar 74 og var fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar síðan 1968. Á plötuumslaginu voru fjórir spjátrungslegir menn í kjölfötum og með pípuhatta, alls ólíkir þeim gömlu góðu Hljómum sem öll þjóðin mundi eftir. Þetta var greinilega orðin ráðsett hljómsveit enda var hún frekar ráðin til að leika á virðulegum dansleikjum en á sveitaböllum og unglingadansleikjum. Hljómar settu það ekki fyrir sig og gáfu út enn eina plötu, í þetta sinn með Rúnari Júlíussyni. Þetta voru allt góðar plötur en engin þeirra náði eins mikilli almenningshylli og gömlu Hljómaplöturnar forðum.

Þá komu Lónlí Blú Bojs til sögunnar og nafn Hljóma sem hljómsveitar var lagt á hilluna. Hljómplötuútgáfan Hljómar hf. hélt hins vegar áfram að gefa út plötur. Þær urðu alls átján talsins áður en útgáfan klofnaði í tvennt eins og sagt er frá á öðrum stað hér á safninu.

© Þorsteinn Eggertsson