Trúbrot

Það kom mörgum á óvart þegar forsprakkar Hljóma og Flowers tilkynntu í maí 1969 að dagar vinsælustu hljómsveita landsins væru taldir og brátt tæki ný ofursveit við. Þeir sem skipuðu kvintettinn voru Gunnar Þórðarson, Rúnar Júlíusson og Shady Owens úr Hljómum og blómapiltarnir Karl Sighvatsson og Gunnar Jökull Hákonarson úr Flowers. Annar eins titringur hafði ekki farið um íslenska poppbransann. Aðdáendur hljómsveitanna, sem voru nánast svarnir andstæðingar, voru sárreiðir og hneykslaðir. Sveitirnar höfðu ekki beinlínis verið samstíga í tónlistarsköpuninni en þegar atburðurinn er skoðaður í sögulegu samhengi er ljóst að þessi samruni hafði legið í loftinu í nokkurn tíma.

Sumarið 1968 stefndu Hljómar á frama í Bandaríkjunum og lokkuðu þeir Shady Owens til sín frá Óðmönnum. Til að styrkja framlínuna enn frekar var ákveðið að Engilbert Jensen einbeitti sér að söngnum og ætlaði Gunnar Jökull að verma trommarastólinn. Bandaríski draumurinn rann út í sandinn áður en Gunnar Jökull yfirgaf félaga sína í Flowers en Gunni Þórðar hafði ekki sagt sitt síðasta orð. Nafnarnir ræddu málin fram í dagrenningu vetrarkvöld eitt í næturklúbbnum Las Vegas. Niðurstaðan varð sú að sameina það besta úr hvorri sveit, röddunarhefðina frá Hljómum og hrynræna þáttinn frá Flowers.

Svipaðir atburðir áttu sér stað á alþjóðavísu og fylgdu margir fordæmi bresku „súpergrúppunnar“ Blind Faith sem varð til við samruna Traffic og Cream. Þeir reru á framsækin mið þar sem blústónlist og sýrurokki var blandað saman. Íslenska ofursveitin ætlaði að feta í fótspor þeirra. Það var ljóst frá upphafi að mikið mannval stóð að nýju sveitinni en tíðindunum var tekið með fyrirvara og þótti illa farið með þá sem eftir sátu í Hljómum og Flowers. Erlingur Björnsson var t.d. ekki ánægður með sinn hlut þótt hann samþykkti að gerast umboðsmaður nýju sveitarinnar. Engilbert Jensen ákvað að ganga frekar í Tilveru en að taka boði hinna um samstarf. Björgvin Halldórsson og Arnar Sigurbjörnsson töldu Sigurjón Sighvatsson á að taka upp bassann og fylkja liði gegn fyrrverandi félögum sínum.

Á augabragði breytti íslenski poppbransinn um svip þegar eftirskjálftarnir fóru um bransann. Margar gamalreyndar poppsveitir riðuðu til falls í látunum og nýjar grúppur spruttu jafnharðan upp úr moldrykinu sem þessu fylgdi. Það gekk ekki þrautalaust að finna nafn á nýju sveitina en eftir mikil heilabrot varð nýyrði fyrir valinu sem Árni Johnsen blaðamaður Morgunblaðsins bjó til; Trúbrot skyldi ofursveitin heita. Á meðan nafnahugmyndin gerjaðist var æft af kappi og blöðin færðu stöðugt fréttir af gangi mála. Erlingur einbeitti sér að því að afla hljómsveitinni sambanda utan landsteinanna enda var fléttan ekki síst hugsuð til að skapa sterka sveit sem ætti möguleika á að hasla sér völl erlendis.

Trúbrot kom fram í fyrsta sinn opinberlega í Sigtúni við Austurvöll snemma í júlímánuði. Leikin voru 12 erlend lög í nýjum útsetningum en samhæfingin þótti ekki nógu góð þrátt fyrir miklar æfingar vikurnar á undan. Strax daginn eftir hélt sveitin með Loftleiðavél til New York þar sem dvalið var í hálfan mánuð og troðið upp í litlum klúbbi í Yonkers undir nafninu Midnight Sun. Var þetta liður í að taka mesta glímuskjálftann úr mannskapnum fyrir væntanleg átök. Þegar hljómsveitin sneri aftur var verslunarmannahelgin fram undan og hafði Erlingur ráðið Trúbrot til að koma fram á útihátíð í Húsafellsskógi fyrir dágóða summu. Þar vakti hljómsveitin mikla hrifningu og þótti standa undir þeim væntingum sem til hennar voru gerðar. Tónlistarflutningurinn var í villtara lagi og krafturinn slíkur að annað eins hafði ekki heyrst eða sést hjá íslenskri poppsveit.

Samningar náðust við Fálkann um útgáfu fyrstu plötu sveitarinnar og stefnt var á upptökur í Trident-stúdíóinu í Lundúnum um haustið. Þar sem meðlimir Trúbrots voru enn að móta stefnuna var erfitt að velja þá tónlist sem átti að fylla þessa frumsmíð kvintettsins. Gunnari, sem var höfuðsmiður hópsins, var nokkur vandi á höndum eins og kemur í ljós þegar hlustað er á smáverkið Afganga og Konuþjófinn sem hafa elst illa, en önnur laga hans hafa staðist tímans tönn. Hópurinn lagði upp með níu ný lög en tveimur var hafnað í hljóðverinu áður kom að hljóðblöndun. Til viðbótar voru tekin upp þrjú erlend popplög af efnisskrá Trúbrots, auk Pílagrímakórsins úr Tannhäuser eftir Richard Wagner sem Karl hafði útsett fyrir Flowers á sínum tíma. Túlkun Trúbrots á verki Wagners fór mjög fyrir brjóstið á tónlistarstjórum útvarps og sjónvarps og var flutningur lagsins bannaður. Þorsteinn Eggertsson hirðskáld Hljóma lagði til flestalla texta plötunnar sem kom út um jólin 1969 og seldist í 3000 eintökum sem var metsala í þá daga. Hljómplöturýnar Morgunblaðsins og Tímans voru í skýjunum og völdu framlag Trúbrots sem hljómplötu ársins 1969 þegar árið var gert upp í janúar 1970.

Erfiðasti hjallinn virtist að baki en því var samt ekki að heilsa. Trúbroti bauðst að leika á Fullveldisfagnaði íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn 1. desember 1969. Daginn sem hljómsveitin sveif um háloftin á leið til Danmerkur birtist frétt á forsíðu Vísis um að fjórir meðlima Trúbrots hefðu nokkru áður verið handteknir og færðir til yfirheyrslu vegna eiturlyfjaneyslu. Málavextir voru þeir að varnarliðsmaður á Keflavíkurflugvelli hafði útvegað Gunnari, Rúnari, Karli og Shady maríjúana og varð mikið fjölmiðlafár vegna málsins. Þótt neysla maríjúna varðaði ekki við lög, þar sem bann við neyslu kannabisefna var ekki lögleitt fyrr en vorið 1972, varð allt vitlaust og Trúbrot var sett út í kuldann. Veitingamenn vildu ekkert af hljómsveitinni vita næstu mánuði, tónlist Trúbrots heyrðist varla í útvarpi og hætt var við sjónvarpsþátt sem hafði verið í deiglunni. Þetta hafði lamandi áhrif á starfsemi Trúbrots, æfingum fækkaði og lítið var að gera hjá sveitinni.

Í apríl 1970 fór Trúbrot til Danmerkur þar sem Björn Björnsson úr Savanna tríóinu var búsettur. Hann útvegaði Trúbroti m.a. starf í Revolution-klúbbnum í Kaupmannahöfn. Þar lék sveitin undir nafninu Breach of Faith og hlaut lofsamleg ummæli í dönskum blöðum. Var eftir því tekið að tónlist þessarar hljómsveitar frá sögueyjunni var fremur innblásin af bandarískri blústónlist en norrænni tónlist. Ferðin var í aðra röndina farin til að hljóðrita fimm lög sem komu út á tveimur litlum plötum, sú fyrri um sumarið og seinni platan í september 1970. Þegar hlustað er á þessar plötur kemur í ljós hversu áhugaverð tónlistarþróunin var; Trúbroti hafði tekist að skapa eigin hljóm en ytri aðstæður komu í veg fyrir að framhald yrði á. Eiturlyfjamálið setti strik í reikninginn, fótunum hafði nánast verið kippt undan hljómsveitinni þegar hún var sett í bann og los komst á hópinn. Þar við bættist að Shady vildi fara aftur heim til Bandaríkjanna og Karl var orðinn leiður á að vera bara Kalli í Trúbrot. Þau kvöddu aðdáendur sína á dansleik sem haldinn var í Glaumbæ 21. júní 1970.

Trúbrot

Plötur

Trúbrot

Keflvíski orgel- og trompetleikarinn Magnús Kjartansson tók við af Karli en það var ógerlegt að fylla það skarð sem Shady skildi eftir sig. Ekki var allt búið enn því Gunnari Jökli fannst metnaðurinn minnka við brotthvarf þeirra tveggja. Tónlistarlegur ágreiningur skapaðist sem varð til þess að hann hætti að mæta á æfingar. Gunnari Þórðarsyni greip til sinna ráða, hringdi í nafna sinn og tjáði honum að hann þyrfti ekki að mæta oftar á æfingar ef hann ætlaði að haga sér með þessum hætti. Jökullinn tók símtalinu sem uppsögn, skellti á nafna sinn og lét ekki sjá sig aftur í herbúðum Trúbrots. Á meðan leitað var að nýjum trommara leystu Ari Jónsson úr Roof Tops og Tataratrymbillinn Magnús Magnússon vandann, en að endingu var Ólafur Garðarsson trommari Óðmanna ráðinn til að berja Trúbrotstrumburnar. Flowers-áhrifin voru á bak og burt en keflvíski hljómurinn styrktist til muna með tilkomu nýrra manna.

Frá Kanaútvarpinu bárust kliðmjúkir söngvar Crosbys, Stills, Nash & Youngs sem Trúbrotsmenn tóku að kyrja af innlifun. Þetta voru ekki beinlínis dansvænir slagarar og þess vegna var dagskránni skipt í tvennt. Fyrri hluta kvölds sátu meðlimir Trúbrots í lótusstellingu með kassagítara, bongótrommur, hristur og önnur órafmögnuð tól og sungu ómþýða sveitasöngva. Síðan risu þeir á fætur, settu hljóðfærin í samband og keyrðu allt í botn. Þetta var skeið firðarhreyfinga, frjálsra ásta og skynvíkkunarlyfja og bar tónlistin keim af tíðarandanum.

Meðlimir Trúbrots flugu til Kaupmannahafnar 7. október 1970 til að leika í dönskum klúbbum í hálfan mánuð, áður en stefnan var sett á Wifoss-stúdíóið þar sem Philip Wifoss hljóðritaði Undir áhrifum og notaði til þess nýja 10 rása upptökuvél sem þótti mikið undur. Þegar platan kom á markað í nóvember sama ár var henni hælt á hvert reipi. Hún þótti framsækin, metnaðarfull og textarnir, sem voru flestallir á ensku, þrungnir þjóðfélagslegum skírskotunum. Því var haldið fram að Undir áhrifum ætti fullt erindi á alþjóðamarkað. Þrátt fyrir góðar viðtökur gagnrýnenda voru kaupendur á öðru máli og stóð platan engan vegin undir væntingum þeirra.

Þegar nýtt ár gekk í garð færði Ólafur Garðarsson sig yfir í Náttúru en Gunnar Jökull og Karl Sighvatsson gengu aftur til liðs við Trúbrot. Endurkoma þeirra þótti einkennileg í ljósi þess að báðir höfðu hallmælt fyrrverandi félögum sínum þegar þeir yfirgáfu sveitina sumarið áður. Björn Björnsson, sem hafði liðsinnt Trúbroti í Danmörku á sínum tíma, tók við framkvæmdastjórninni. Með fyrstu verkum hans var að ráða Trúbrot til að fremja tóngjörning í umdeildri uppfærslu Þjóðleikhússins á Faust eftir Goethe. Þar dönsuðu strípaðar stúlkur í takt við tónlist Trúbrots og vakti þetta uppátæki hneykslan margra. Trúbrotsmönnum gafst nú kjörið tækifæri til að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið og halda áfram að þróa tónlist sína. Strákarnir leigðu bakhús við Laugaveg, hver og einn keypti málningu að eigin smekk, síðan var öllu hellt í stóra fötu og húsnæðið málað í litnum sem varð til úr þessari blöndu. Það vildi svo vel til að það var skapandi ljósgrænn litur og í þessu umhverfi varð eftirminnilegt poppverk til. Þeir byrjuðu á að safna saman lagstúfum, textabrotum og hugmyndum sem höfðu verið að gerjast, settu allt í einn pott líkt og málninguna og þar með hófst sköpunarsaga …lifunar. Æfingar stóðu linnulítið næstu sex vikurnar og ekkert truflaði það ferli nema sýningarnar í Þjóðleikhúsinu. Að þeim tíma liðnum var …lifun fullmótað verk og auglýsti hljómsveitin tónleika í Háskólabíói 13. mars þar sem frumflytja átti verkið.

Trúbrot

Stóri dagurinn rann upp, spennta áheyrendur dreif að og biðu þess sem koma skyldi á meðan reykelsisangan barst um húsið. Kliður fór um salinn þegar Shady Owens birtist á blómum skreyttu sviðinu og söng gömlu uppáhaldslögin með félögum sínum. Það var eins tíminn stæði í stað, ekkert hefði breyst, þar til fyrstu tónar …lifunar fylltu salinn. Þessi stund er ógleymanlegt þeim 997 manns sem voru í Háskólabíói þennan dag í marsmánuði 1971. Hljómsveitin hélt til Lundúna nokkru eftir tónleikana og hljóðritaði verkið fyrir Tónaútgáfuna í Morgan Studios og Sound Techniques 18. og 19. mars undir stjórn Gerrys Boys. Þegar platan kom út þótti útlit hennar nýstárlegt þar sem umslagið var afskorið á hornunum og myndaði sexhyrning. Aðdáendur og gagnrýnendur tóku plötunni vel og hældu henni á hvert reipi. Meðlimir Trúbrots voru ánægðir með árangurinn og voru fullvissir um að platan gæti aflað þeim frægðar og fjár ef hún kæmi út á alþjóðavísu. Það náðist hins vegar enginn árangur á því sviði fremur en fyrri daginn, þrátt fyrir að atlögur væru gerðar að forráðamönnum útgáfufyrirtækja víða um lönd. Þegar upp var staðið var salan ekki meiri en svo að Tónaútgáfan treysti sér ekki til að halda samstarfinu við Trúbrot áfram.

Gunnar Jökull vildi að Trúbrot tæki stjórn mála í eigin hendur og fyrsta verkefnið var tónlistarhátíð í anda Woodstock sem haldin var í samstarfi við Æskulýðsráð Reykjavíkur hvítasunnuhelgina 1971. Herlegheitin voru kynnt sem hátíð fyrir ungt fólk og slagorðið var: ,,Í Saltvík um hvítasunnuna skemmtum við okkur í friði, ást og eindrægni og við drekkum ekki!? Vikurnar fyrir hátíðina var sannkallað sumarveður en um hvítasunnuna snerist veðrið til sunnanáttar með tilheyrandi roki og rigningu. Hátíðargestir létu það ekki á sig fá og ösluðu 10.000 ungmenni drulluna upp í miðja ökkla á meðan helstu poppsveitir landsins fluttu tónlist sína. Trúbrotsmenn þénuðu nærri því árslaun sín á tiltækinu og þótti mörgum að hljómsveitin hefði haft allt of mikið upp úr krafsinu. Eftir hátíðina greip Karl Sighvatsson tækifærið, setti orgelið í geymslu án þess að hinir vissu af fyrirætlan hans, flaug með næstu vél til Kaupmannahafnar og lagði af stað í heimsreisu án þess að kveðja kóng eða prest. Þeir sem eftir voru ákváðu að láta brotthvarf Karls ekki hafa áhrif á sig heldur skyldu þeir halda áfram eins og ekkert hefði í skorist og kynna …lifun fyrir landslýð með hljómleika- og dansleikjahaldi. Næstu mánuðir voru tíðindalitlir að öðru leyti en því að nóg var að gera við spilamennsku, enda voru þeir ókrýndir konungar íslenska poppsins. Þótt meðlimum Trúbrots gengi flest í haginn voru þrengingar fram undan. Tekjumöguleikar hljómsveita fóru minnkandi eftir að skattheimtumenn hertu tökin á samkomuhúsum landsins. Reykvískir veitingamenn mættu auknum álögum með því að draga úr kostnaði við hljómsveitahald. Gunnar Jökull vildi að þeir félagarnir stofnuðu útgáfufyrirtæki og legðu sig eftir allskyns stúdíóvinnu til að mæta samdrættinum.

Gunnar Jökull

Þegar árið 1972 gekk í garð voru Trúbrotsmenn önnum kafnir við að leika á plötum annarra listamanna, en á þorranum var farið að leggja drög að fjórðu plötunni og nú átti að eyða meiri tíma í upptökurnar en áður hafði þekkst. Útgefendum fannst krafan um fjölgun stúdíótíma hreinasta firra og þess vegna var sjálfgefið að Trúbrotsmenn gerðust eigin útgefendur. Hljómsveitin hélt til Danmerkur í apríl og var Engilbert Jensen fenginn til að styrkja sönginn, sem þótti vera lakasta hlið …lifunar. Upptökur fóru fram í Rosenberg Sound Studios þar sem Trúbrot hljóðritaði 11 lög. Mandala kom út sumarið 1972 og fékk misjafna dóma. Þótti mörgum sem allur kraftur væri úr hljómsveitinni. Platan skilaði samt ágætishagnaði enda seldust um 3800 eintök, sem var meiri sala en Trúbrotsmenn áttu að venjast. Þegar til átti að taka vildu flestir taka hagnaðinn út í stað þess að leggja hann óskiptan í útgáfufélagið Trúbrot hf. eins og um hafði verið rætt. Þetta mislíkaði Gunnari Jökli sem lét óánægju sína í ljós með því að mæta ekki á æfingar og tilkynna félögum sínum að hann ætlaði aðeins að leika með þeim einu sinni í viku þótt sveitin væri fullbókuð alla daga vikunnar. Þetta gat ekki gengið til lengdar og seint í ágústmánuði var ákveðið að Gunnar tæki pokann sinn og hætti fyrir fullt og allt.

Trúbrot varð fyrir álitshnekki um líkt leyti þegar ljóðskáldið Jóhann Hjálmarsson stefndi Rúnari fyrir ritstuld. Jóhann hélt því fram að textinn við My friend and I væri þýðing á ljóði hans Skugginn sem kom út í ljóðabókinni Malbikuð hjörtu 1961. Rúnar hélt uppi vörnum og sagðist ekki vera neinn ljóðaunnandi og ekki þekkja til verka Jóhanns. Engu að síður féll dómurinn skáldinu í vil og Rúnar var dæmdur til að greiða honum 80.000 krónur í höfundarlaun. Mandala er í rauninni svanasöngur Trúbrots, þó enn eigi eftir að greina frá síðustu mánuðum þessarar merku hljómsveitar. Þegar Gunnar Jökull sagði skilið við félaga sína tók Ari Jónsson trommari Roof Tops sæti hans og Engilbert sá um slagverkið ásamt söngnum. Í október bættist gítarleikarinn Vignir Bergmann í hópinn, fyrrverandi félagi Magnúsar úr Júdasi, sem hafði starfað um árabil með Ara í Roof Tops.

Síðasta mánuðinn eða svo sungu félagarnir Magnús Þór Sigmundsson og Jóhann Helgason með Trúbroti en hljómsveitin var komin á endastöð. Það fjaraði hratt undan metnaðarfullum hljómsveitum sem áttu ekki sjö dagana sæla. Á sama tíma og meðlimir Trúbrots leituðu að nýjum hljómi tóku veitingamenn tæknina í sína þjónustu, fjárfestu í plötuspilurum og hljómkerfum og fengu diskótekurum völdin. Þar með var fokið í flest skjól. Trúbrot hefði eflaust getað lagað sig að breyttum aðstæðum og stórsveitin náð árangri því þar var valinn maður í hverju rúmi. En forsprakkar Trúbrots voru orðnir lúnir eftir langan og oft og tíðum erfiðan róður og ákváðu að leggja árar í bát vorið 1973 eftir fjögurra ára litríkan feril. Þar með lauk merkum áfanga íslenskrar poppsögu.